138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á að til viðbótar við annað vill hv. þingmaður ekki draga úr vegaframkvæmdum né endurskipuleggja opinbera þjónustu þannig að sparnaður náist fram í henni, (BJJ: Ég hef ekki sagt það.) t.d. í sýslumannsembættum eða skattumdæmunum. Þá er lítið orðið eftir hjá hv. þingmanni.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að framkvæmdir komist í gang, hvort sem heldur er framkvæmdir á sviði orkumála eða þær framkvæmdir sem nú er rætt við lífeyrissjóðina um að þeir komi að að fjármagna. Mikilvægast í því er atvinnan.

En við þurfum að reka ríkissjóð núna, við þurfum að takast á við stöðuna eins og hún er. (BJJ: Reka samfélagið.) Já, við þurfum að gera það. Ef við tökumst ekki á við þetta gerist bara eitt, vaxtakostnaðurinn verður ekki 100 milljarðar kr. á næsta ári heldur 120 o.s.frv. Hv. þingmenn verða að horfast í augu við að nú þegar fer nánast fjórða hver króna í útgjöldum ríkisins í vaxtakostnað. Hversu lengi getum við þolað að þetta hlutfall fari hækkandi og minna og minna verði til skiptanna í annað?

Ég tel mjög mikilvægt að við notum þetta tækifæri til að fara rækilega í gegnum skipulag hinnar opinberu þjónustu, nota möguleika til hagræðingar og nota tækninýjungar. Til dæmis er löngu tímabært að landið verði allt eitt skattumdæmi. Framtölin hafa að mestu leyti horfið inn á netið, engu máli skiptir hvar úr þeim verður unnið. Miklir möguleikar til þess, m.a. með verkaskiptingu, að láta vinna þau störf á landsbyggðinni. Ætlunin er að taka jafnvel heila flokka, eins og alla úrvinnslu tekjuskatts, og hafa í einu skattumdæmi á landsbyggðinni en aðra annars staðar, landbúnaðarframtölin kannski á Suðurlandi o.s.frv. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Skyldi nú ekki enda þannig að af því að þetta er tekið heildstætt með landið allt undir verði mesta hagræðingin og mestu breytingarnar á höfuðborgarsvæðinu?