138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur stundum hvarflað að mér við þá umræðu sem hér hefur verið í morgun á Alþingi að stjórnarliðar virðist illa gera sér grein fyrir því að það eyðist sem af er tekið. Því segi ég að við erum, í umræðu um þá gjörð sem liggur í fjárlagafrumvarpinu, sífellt að tala um þá köku sem við höfum til skiptanna í stað þess að reyna að stækka hana. Ég sakna þess að heyra ekki í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hugmyndir sem lúta að því hvernig við getum stækkað þá köku sem í boði er sem gerir okkur fært að taka betur á þeim vandamálum sem vissulega eru uppi í íslensku samfélagi í dag.

Það var nefnt hér í umræðum í gær um stöðugleikasáttmálann og enn var rætt um það í morgun að þeir aðilar á vinnumarkaði sem koma að gjörð þeirri hafa núna uppi mjög ríkan fyrirvara á framhaldi þessa sáttmála, sem er sögulegur að sínu leyti. Nú síðast lætur formaður Starfsgreinasambandsins hafa eftir sér að hann telji stöðugleikasáttmálann hafa gengið úr sér og ræðir mjög um vanefndir stjórnmálamanna við að koma hjólum atvinnulífsins á hreyfingu. Þá er ekki nema eðlilegt að maður kalli eftir því hvaða hugmyndir liggi fyrir hjá stjórnarliðum, og sérstaklega í þessu tilviki hjá hv. varaformanni fjárlaganefndar. Hvernig sér hann það land skipast á næsta ári í tengslum við það frumvarp sem hér er lagt fram? Það væri mjög ánægjulegt að heyra það og ég varpa þá bara upp einni lítilli hugmynd sem að hann getur stuðst við í svari sínu þótt ekki væri annað, fyrir utan stóriðjuna sem fékk mikla umræðu í morgun: Hvernig líst hv. varaformanni fjárlaganefndar á að auka við veiðiheimildir á árinu 2010? Hvernig hugnast honum það í þeim tilgangi að stækka þá köku sem er til skiptanna?