138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hv. þm. Björn Valur Gíslason gaf hér áðan og vænti þess að hann berjist þá fyrir því innan sinna raða að þetta verði gert.

Varðandi aðra þætti þess sem hér hafa verið ræddir langar mig einnig að heyra í varaformanni fjárlaganefndar varðandi skipulag og endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Það kom fram í máli manna fyrir hádegi í dag að þeir hefðu verulegar áhyggjur af ýmsum opinberum embættum sem ætlunin er að leggja af vítt um land. Og þó svo að hv. þingmaður hafi rætt um að við mættum ekki brotna upp í einingar er það óhjákvæmilegt þegar við horfum á veik byggðarlög vítt um land að skoða þá stöðu sem þar er uppi. Ég nefni sem dæmi að bara það að verði sýslumannsembættið í Vík lagt af jafngildir því að 250 manna vinnustaður sé lagður niður hér í Reykjavík. Ég skora á hv. þingmann að beita sér fyrir því að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í fjárlaganefnd í viðtölum við sveitarstjórnarmenn þar sem lýst hefur verið verulegum áhyggjum vegna þessara mála. Ég minni enn og aftur á að samflokksmenn hv. þingmanns í Norðvesturkjördæmi lýstu frumvarpinu sem sóknaráætlun gegn landsbyggðinni og þá er einhver ástæða til þess. Menn hafa af þessu verulegar áhyggjur.

Í lokin vil ég inna hv. þingmann eftir því hvort hann hafi virkilega ekki áhyggjur af þeirri óvissu sem ríkir um tekjuhluta þessa frumvarps. Rakið hefur verið í umræðum í morgun að inn í þetta frumvarp vanti allar hugmyndir um útfærslu skatta og ég kalla þá eftir því hvaða hugmyndir eða tillögur hv. þingmaður hefur varðandi hvernig t.d. skattar á einstaklinga og fyrirtæki verði útfærðir. Ég vænti þess að stjórnarliðar hafi gleggri upplýsingar um þau mál en stjórnarandstaðan hér á þingi.