138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt við spurningu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um nýtingu sjávarauðlinda og fiskimiða hefði ekki átt að koma hv. þingmanni á óvart. Eins og ég sagði áðan hefur margoft komið fram í máli mínu bæði hér á Alþingi sem og annars staðar að ég tel að nýta megi þessa auðlind miklu betur en við gerum, að skapa megi miklu meiri atvinnu hér á landi með nýtingu auðlindarinnar en gert er í dag og að sömuleiðis megi skapa miklu meiri verðmæti í þjóðarbúið. Okkur kann að greina á um hvernig við munum gera það, hvernig við munum ná meiri arði út úr þessari auðlind og þessum fiskstofnum en við gerum í dag en við hljótum þó að vera sammála um að það er mögulegt. Að því er unnið þessa dagana og þessar vikurnar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarflokkanna, m.a. um endurskoðun á fiskveiðistefnunni. Má vænta þess að fljótlega í vetur komi í ljós einhver árangur af þeirri vinnu í samstarfi við hagsmunaaðila í greininni.

Ég hef, rétt eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, áhyggjur af þeim samdrætti sem er boðaður í fjárlagafrumvarpinu og kemur ekki síst niður á opinberri þjónustu víða um land, úti á landsbyggðinni. Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af því. Ég held að við þingmenn allir munum þurfa að skoða þau mál mjög vel þegar að því kemur. Það þýðir hins vegar ekki að það verði hjá breytingum komist. Við getum ekki lamið höfðinu við steininn hvað það varðar, það er ekkert það atriði í ríkisrekstrinum sem við verðum ekki að taka á, ekki eitt einasta atriði. Það verður ekki undan því flúið að taka á þessum málum en við munum auðvitað gera það af mikilli yfirvegun og reyna að koma í veg fyrir að það valdi of miklu tjóni.