138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna það út af orðum hv. þingmanns um kvikmyndirnar að það er með Kvikmyndasjóðinn eins með annan lið í þessu frumvarpi, sem er Jöfnunarsjóður námsmanna, þar er um að ræða tvo liði sem höfðu hækkað mjög mikið á milli fjárlaganna 2008 og 2009 og voru þar af leiðandi teknir öllu róttækar niður en kalla má æskilegt. Ég tel mjög mikilvægt að fjárlaganefnd skoði sérstaklega þessa tvo liði í meðförum sínum á frumvarpinu. Það er hugsanlega eitthvert borð fyrir báru varðandi tilfærslu milli liða og þá nefni ég sérstaklega að gert er ráð yfir talsverðri aukningu til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, einkum þá til að mæta fjölgun. Þar má hugsanlega finna eitthvað til að gera niðurskurð á þessum liðum öllu meira í takt við aðra liði þannig að ég tel mjög mikilvægt að fjárlaganefndin skoði þetta út frá því sjónarmiði. Við unnum að því að mæta þeirri niðurskurðarkröfu sem okkur var sett þannig að við sjáum ekki fyrir okkur að aukið fjármagn þurfi endilega til, þarna sé hins vegar möguleiki á að færa til fjármuni. Ég mun ámálga það við fjárlaganefnd að hún skoði þann möguleika.