138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni kærlega fyrir kraftmikla ræðu. Það kom mér á óvart hvað hann hafði miklar upplýsingar um hugarfar stjórnarmeirihlutans og ætlunarverk og gat fullyrt að ætluðu menn ekki að gera hina og þessa hluti, t.d. hvað varðar stóriðju, eða ætluðu að leggja hitt og þetta í rúst. Hann veit líka hvernig á að útfæra skattstefnuna sem aðrir þingmenn hafa ásakað ríkisstjórnina um að geta ekki sagt hvernig ætti að gera. Gaman væri ef Ásbjörn upplýsti okkur um hvaða tölur hann er með í huga þegar hann segir að allt sé að fara á hliðina.

Ég tek undir með honum að við eigum eftir að vinna úr þessu frumvarpi, en ég vara við að menn tali þannig að hægt sé að leysa þetta allt saman með aukinni þenslu upp á nýtt. Við erum búin að prófa þá aðferð. Mig langar að heyra hvort hann er ekki sammála mér um að við eigum ekki að fara í kollsteypu aftur, heldur aðlaga samfélagið og átta okkur á því hverju við höfum efni á að eyða og hvaða tekjur við höfum í stað þess að treysta á að við getum tekið til við nýjar framkvæmdir sem duga okkur í skamman tíma en skapa svo tómarúm og vandamál í framhaldinu.

Ég deili þeirri skoðun með þingmanninum, og það hefur komið fram áður á opinberum vettvangi, að okkur er alveg óhætt að veiða meiri fisk. Við eigum að reyna að skoða saman hvort ekki er hægt að koma því við. Auðvitað verðum við að haga skattlagningu á fyrirtæki þannig að þau standi undir því. Gaman hefði verið að heyra frá hv. þingmanni — í stað þess að liggja á hnjánum og vorkenna fyrirtækjum sem eiga nokkuð örugga afkomu í augnablikinu — hvað hann telji eðlilegt að fyrirtæki taki mikinn þátt í endurreisninni á samfélaginu. Hvað getum við búist við að stóriðjan, og þess vegna sjávarútvegurinn, leggi mikið til núna á þessum krepputímum?