138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Ásbirni Óttarssyni kærlega fyrir svarið.

Mig langar að bæta við spurningu af því að þingmaðurinn orðaði það þannig að við hefðum átt að leita til atvinnulífsins varðandi afstöðu til skattlagningar og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Ég held að menn hafi einmitt reynt í sambandi við þetta fjárlagafrumvarp að ná sátt á vinnumarkaðnum um hvernig við kæmum að málum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi leitað samráðs við Samtök atvinnulífsins um þá hugmynd að skattleggja lífeyrissparnað fyrir fram, hver afstaða Samtaka atvinnulífsins hafi verið og hvort þau ætli að halda þeirri hugmynd til streitu. Ætli þau að gera það skal ég lofa að mæla eindregið með því að þessi tillaga verði tekin til alvarlegrar skoðunar. Hún verði rædd í efnahags- og skattanefnd, sem tekjunefndinni sem vinnur fyrir fjárlaganefndina, og ef ekki þar þá í fjárlaganefndinni þar sem við reynum að nálgast allar slíkar tillögur af þeirri sjálfsögðu tillitssemi að reyna að afgreiða þær.

Mér fannst vera ákveðin mótsögn þarna, í að reynt hafi verið að hafa samráð við Samtök atvinnulífsins og að rætt hafi verið við þau. Þegar tillagan um skattlagningu lífeyrissparnaðar kom fram var verið að vinna að stöðugleikasáttmálanum. Þar voru aðilar ekki mjög hrifnir af tillögunni og þess vegna kom hún ekki beint inn í sáttmálann. Þannig að ég er spenntur að heyra hvert samráðið hefur verið, vegna þess að ég geri ráð fyrir töluverðum tengslum Sjálfstæðisflokksins við atvinnulífið, eins og hefur verið áður.

Varðandi skattlagningu á fyrirtæki að öðru leyti þá berum við öll fyrir brjósti að reyna að hafa skattlagninguna eins hóflega og hægt er til að skapa svigrúm. Ég gerði grein fyrir því að allar þær aðgerðir sem við hefðum átt að grípa til núna voru notaðar í þenslunni af flokkunum sem þá réðu og það hefur skapað okkur miklu þrengra svigrúm núna en annars hefði verið.

Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns, sem þá var ekki inni á þingi, á því hvernig sú aðferðafræði sem notuð var í þenslunni fór með landsbyggðina.