138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Já, frú forseti. Ég tel heils hugar undir það með hv. þingmanni Guðbjarti Hannessyni að hagstjórnin í þenslunni var algjörlega kolröng. Það var algjörlega kolrangt að þenja út ríkiskerfið í þenslunni. Eins og hann benti réttilega á, og nefndi í ræðu í morgun, þá færðu menn atvinnuleysið af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið. Þetta þekkjum við öll sem búum úti á landsbyggðinni. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að við stöndum saman um að verja þessar litlu stofnanir núna. Það hefur tekið ár og áratugi fyrir sveitarstjórnarmenn og íbúa úti á landsbyggðinni að fá til sín störf. Þeir hafa þurft færa alls konar rök fyrir að þau eigi að vera þar en ekki hér. Núna, þegar stjórnsýslan hér fyrir sunnan fer að skera niður, er auðvelt að skera niður það sem er fjær. Þetta þurfum við að passa og ég treysti að Alþingi muni gera það.

Þingmaðurinn kemur inn á hugmyndir í sambandi við breytingar á skattlagningu lífeyrissjóða, þ.e. borga skattinn við inngreiðslu, með því mætti hugsanlega fá í kringum 35 milljarða í tekjur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á, Samtök atvinnulífsins tóku þessu mjög illa vegna þess að sömu aðilarnir stýra lífeyrissjóðunum. Skoða verður raunsætt hvaða hagsmunir liggja að baki. Mér býður í grun að hugsanlega sé komið annað hljóð í strokkinn hjá sumum þessara manna og þeir vilji hugsanlega skoða slíka leiðir.

Mikilvægt er að við ræðum efnislega hvernig við getum forðast að fara svona hart gegn heimilunum og fyrirtækjunum í landinu, því að það verður eyðimerkurganga. Algjör eyðimerkurganga, því miður. Ég er ekkert að segja þetta vegna þess að mér sé illa við þessa stjórn. Þetta er bara sannfæring mín, þó að sjálfsögðu væri mesta hagsmunamál í uppbyggingu efnahags Íslands að losna við ríkisstjórnina. Það er alveg hárrétt.