138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir fína ræðu en mig langar að spyrja hv. þingmann út í úrskurð umhverfisráðherra vegna Helguvíkur. Eins og hún veit jafn vel og ég, felldi umhverfisráðherra úrskurð sem setur það verkefni algjörlega í uppnám. Eftir því sem forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sagt er með því verið að tefla þessu verkefni í mjög mikla tvísýnu. Þessir orku- og auðlindaskattar verða lagðir á plús þessi úrskurður og það tefur verkið. Í raun og veru er verið að drepa það. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sagt að það sé hugsanlega eina leiðin að hætta bara við framkvæmdina.

Af því að hv. þingmaður þekkir mikið til á Suðurnesjum og samstarfsfólk hennar í bæjarstjórninni í Garðinum hefur einmitt lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa úrskurðar umhverfisráðherra, hvað finnst henni um þetta? Finnst henni ríkisstjórnin með þessu standa við stöðugleikasáttmálann?

Hv. þingmaður kom hér inn á framlag vegna niðurskurðar í þorskafla. Það er alveg hárrétt, það var gert þegar þorskaflinn var skorinn niður úr 190 þús. tonnum í 130 þús. tonn og ég tek heils hugar undir áhyggjur hennar í sambandi við það.

Þorskaflinn var 130 þús. tonn og ýsan 100 þús. tonn, sem eru þá 230 þús. tonn samtals, en núna er búið að skera þorskinn niður í 150 þús. tonn og ýsuna niður í tæp 60 þús. tonn. Við erum því núna með 210 þús. tonn, sem er í raun og veru miklu meiri niðurskurður, 10%, en þegar þetta framlag var sett til þess að reyna að styðja við sveitarfélögin. Ég vildi þá spyrja hv. þingmann: Finnst henni þetta réttmæt aðgerð þegar búið er að skerða veiðiheimildir meira nú en gert var þegar framlagið var ákveðið á sínum tíma?