138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við ræddum um framlag vegna niðurskurðar í þorskafla og ég benti á að það væri 20% meiri skerðing núna en þegar það var sett á í upphafi. Hvað finnst hv. þingmanni þá um þegar auðlindagjaldið á sjávarútveginn er hækkað úr 170 milljónum upp í 1.180 milljónir, sem er þá einn milljarður sem kemur til viðbótar?

Ég veit að hv. þingmaður hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum og því langar mig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hún sjái einhverjar raunhæfar leiðir fyrir sveitarfélögin til þess að ná sér í auknar tekjur til þess að þau standi undir rekstri sínum. Þau voru mörg hver ekkert í skárri stöðu en ríkissjóður eftir skattpíningu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna. Sér hún einhvers staðar möguleika á að sveitarfélögin geti náð sér í einhverjar tekjur í kjölfar þess?