138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orðin og ég get tekið undir með honum að við þurfum að hlúa að menntakerfinu. En auðvitað þurfa allar stofnanir að taka á sig niðurskurð í þessu ástandi þótt gert sé ráð fyrir að t.d. framhaldsskólar landsins taki á sig 5,5% niðurskurð, svo því sé haldið til haga.

Framlög til grunnskóla landsins hafa farið í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Jöfnunarsjóður hefur dregist saman vegna þess að hann fær hluta af ríkistekjum til sín og ríkistekjur hafa auðvitað dregist saman, en eins og við vitum er ekki allt fengið með peningum. Við þurfum hlúa að börnunum okkar. Ég sagði í ræðu í fyrradag að nú væri mikið talað um nágrannavörslu. Menn auglýsa nágrannavörslu svo nágrannarnir gæti að eigum hvers annars. Því ættum við ekki að leggja áherslu á nágrannavörslu og taka hana aðeins lengra þannig að nágrannarnir gæti að börnum og unglingum landsins? Við þurfum að hafa í huga að það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Það eru ekki bara stofnanirnar, það er allt umhverfið í kring sem þarf að hlúa að börnum og einmitt núna í kreppunni finna mörg börn fyrir spennu. Þau skilja hana ekki. Það þarf að setjast niður með börnunum. Mér finnst mikilvægt að við notum þessi tímamót núna þegar fjölmiðlar eru að rifja upp hvað gerðist fyrir ári síðan og setjumst niður með börnunum og léttum af þeim áhyggjum af þessum spennuþrungna heimi fullorðinna.