138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hv. þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég vona að hann hafi ekki misskilið það sem fram kom í ræðu minni þannig að ekki þurfi að auka skattheimtu í því umhverfi sem við erum í í dag. Það er alveg ljóst að við þurfum að spara og við þurfum að fá meiri tekjur til ríkissjóðs. Við getum kannski deilt um það, og það var í rauninni það sem hann spurði um, hvernig við gerum það, hvaða aðferðafræði við notum.

Í þessu frumvarpi kemur í rauninni tvennt fram: Það á að auka skatta en það er ekki útfært hvernig nema að því leyti að innheimta eigi orkuskatt. Ekki kemur fram svokölluð þrepaskattshugmynd sem hann nefndi hér. Það kemur fram, að mig minnir, að það standi til að hækka skatta í efra virðisaukaskattsþrepinu. Ég get tekið undir að rétt sé að skoða það. Við framsóknarmenn höfum sagt að skatta í lægra skattþrepinu, matvælaskatta og aðra, megi ekki hækka því að þeir muni koma verst við heimilin. Ég held að almenn skattahækkun — og fyrir því höfum við talað — sé réttlátari en að fara í sértækar aðgerðir. Þá útiloka ég ekki að þeir sem meira bera úr býtum eigi að borga meira. Ég útiloka það ekki, ég tek það fram, við höfum ekki útilokað slíkt. En almenn skattahækkun ásamt hækkun á persónuafslætti mun nýtast best þeim sem minnst mega sín og hún mun jafnframt tryggja að þeir sem meira hafa á milli handanna munu þá greiða meira hlutfallslega, það er leið sem við horfum til. Ég vara hins vegar við því að atvinnulífið sé skattlagt og ég held t.d., af því að ég kom því ekki að í ræðunni áðan, að fyrning í sjávarútvegi sé leið til að setja atvinnulífið í uppnám og að fyrirtæki geti þá ekki staðið við þá skatta sem þau eiga þó að borga í dag.