138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal rembast við að reyna að útskýra aðeins betur þetta með Matís. Að sjálfsögðu eru það ekki leigutekjurnar sem skapa öll þessi störf. Það er leigusalinn sem á grundvelli þess að gera hagstæðasta tilboð í að leigja þessari starfsemi húsnæði ræðst síðan í framkvæmdir til að standsetja það og það skapar um 200 störf. Til að mæta húsaleigunni í fjárlögum komandi ára þarf síðan þessa hækkun því að nú er stofnunin komin á einn stað með alla sína starfsemi. Ég tel að þarna hafi verið vel að verki staðið, tvær flugur slegnar í einu höggi. Þessi stofnun fær úrlausn sinna húsnæðismála og störf sköpuðust fyrir iðnaðarmenn í vetur sem var ákaflega kærkomið.

Varðandi ferjureksturinn yfir Breiðafjörð er sjálfsagt að skoða hvernig það mál stendur af sér í ljósi þess hvar menn eru á vegi staddir með samgöngubæturnar sem áttu að leggja grunn að því að ríkið gæti hætt að styrkja þessa ferjustarfsemi. Þannig var það hugsað, þetta er áætlun frá tíð fyrri stjórnvalda sem unnið hefur verið eftir.

Í sambandi við hagræðingaraðgerðirnar held ég að menn ættu að skoða hvernig þetta er nálgast núna. Ég man eftir átökum þegar átti að reyna að leggja niður eitt eða tvö sýslumannsembætti í afskekktum byggðum. Eðlilega voru menn þá óhressir og fannst að sú hagræðing ætti eingöngu að koma niður þar. Nú er það ekki svo, nú er landið allt undir. Menn munu t.d. ekki síður merkja breytingarnar hér á höfuðborgarsvæðinu þegar skatturinn verður gerður að einu umdæmi fyrir allt landið og stór skattstofa á höfuðborgarsvæðinu lögð niður eða sameinuð ríkisskattstjóraembættinu.

Það er ekki verið að kroppa í þetta handahófskennt á einum og einum stað heldur er landið allt undir, umdæmi eru stækkuð eða sameinuð til þess að hægt sé að veita þjónustuna. Það er ekki hægt að skera þessar litlu einingar niður með sömu kröfum og allar aðrar. Þar sem einn sýslumaður starfar og spara á um 20%, hvað á að gera? Á hann að fara í 80% starf? Þannig er ekki hægt að gera þetta, þess vegna verður að nálgast þetta í gegnum víðtækari skipulagsbreytingar. Það felur ekki síður í sér tækifæri og möguleika (Forseti hringir.) fyrir landsbyggðina en hættur.