138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:23]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki skemmtilegustu bókmenntir sem sá sem hér stendur hefur lesið á ævinni, langt í frá. Þetta fjárlagafrumvarp hefur verið nefnt ýmsum nöfnum, t.d. kallaði ágætur forseti Alþýðusambands Íslands það óskapnað. Stjórnarandstaðan hefur komið fram í dag og sagt þetta fjárlagafrumvarp vera fálmkennt og í besta falli til vitnis um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sem nú situr við völd.

Þessu er ég alls ekki sammála. Þessi óskapnaður sem fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 er ber þess merki að Ísland hefur verið keyrt í þrot. Þar störfuðu margir í skrýtnu verki og undanskil ég þar ekki Samfylkinguna, Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og jafnvel Vinstri græna í stjórnarandstöðu, eftirlitsstofnanir í landinu, fjölmiðla og fleiri mætti telja.

Við erum í vanda stödd og þurfum að laga samfélagið að þeim veruleika sem við blasir. Við lifðum um efni fram og þurfum að herða sultarólina eins og gert er á mörgum heimilum í dag. Hvernig fer sjálft þjóðarheimilið að? Jú, það hlýtur að horfa til grunngildanna í samfélaginu rétt eins og hvert heimili gerir þegar að því er sótt efnahagslega. Það horfir til barna sinna, það horfir til aldraðra en sleppir e.t.v. nýju sófasetti og utanlandsferð. Það horfir til grunngilda.

Það þurfum við líka að gera hér og nú við þá fjárlagagerð sem blasir við. Við þurfum að horfa til grunngilda og helst þurfum við að ná sáttargjörð á milli þeirra flokka sem starfa á Alþingi hvað viðkemur þessum grunngildum. Það getur ekki verið svo ár eftir ár, frú forseti, að það fólk sem býr við sístu lífskjörin — jafnvel í þenslu — skuli vera skiptimynt þegar kemur að samdrætti í samfélaginu og þar skuli vera byrjað. Svo má aldrei verða og það mun ég ekki styðja hér á þingi.

Engu að síður þarf að skera niður og leggja á aukna skatta, það er ekki um aðrar leiðir að velja. Auðvitað hugum við líka að þriðju leiðinni sem dugar þó skammt fyrsta kastið, þ.e. að koma hjólum atvinnulífsins almennilega af stað. Ég vil hreinlega segja hér og nú að þar er ég vinstri grár. 180 milljarða kr. gat ef ekkert er að gert — þar tek ég undir með hæstv. fjármálaráðherra: þá kollsiglum við þjóðina. Við þurfum að stíga hart á bremsuna og við þurfum að auka skatta, réttlátt. Skattkerfið er jú það tæki sem við getum notað til að auka á jöfnuð í samfélaginu og ég tel að þar sé margt óunnið. Aukin skattheimta má þó ekki fyrst og síðast lenda á venjulegum millitekjufjölskyldum í landinu og ekki verða til þess að persónuafsláttur verði aðskilinn frá venjulegum mælikvörðum. Hún má heldur helst ekki verða til þess að vaxtabótakerfið, sem er líka jöfnunartæki, verði afnumið.

Ég er ekki talsmaður þess að leggja hátekjuskatta á millitekjufólk og ég er ekki talsmaður þess að leggja gríðarlega skatta, beina sem óbeina, á fólk sem þarf miklar tekjur til þess að hafa í sig og á, barnafólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og þá sem búa við einna lakastan kost í samfélaginu, aldraða, öryrkja og langveika.

Eitt umfram allt verður að hafa í huga við fjárlagagerðina, það verður að skera burt fituna og þar er af nægu að taka. Ríkisbáknið hefur þanist út á Reykjavíkursvæðinu á síðustu árum. Það skal aldrei verða svo að forstjórar ríkisfyrirtækjanna sem eiga heima hér í Reykjavík og ganga hér til vinnu byrji á því að skera niður það fólk sem er fjærst þeim landfræðilega, sem er jú mannlegt en ekki réttlátt miðað við núverandi kerfi. Ég mun ekki samþykkja það hér á þessu þingi ef ég get einhverju ráðið.

Við verðum að spyrja okkur þeirra spurninga hverju ber að hlífa og hverju verður að fórna, vegna þess að núna þarf að fórna einhverju. Til dæmis varðandi heilbrigðisþjónustuna. Við skulum klárlega styðja við heilsugæsluna og grunnþættina í heilbrigðiskerfinu en kannski þarf samt að fórna einhverjum stórum þáttum. Er t.d. réttlætanlegt að vera með sex sjúkrahús á suðvesturhorninu þegar þrengir að? Getur 300.000 manna þjóð verið með allar flóknustu læknisaðgerðir hér á þessari eyju úti í ballarhafi? Getum við það, höfum við efni á því? Ég efast um það. Við þurfum að skera niður, við þurfum að fórna og hugsa róttækt í þeim efnum. Flatur niðurskurður er ekkert annað en stjórnsýsluleti.

Ég vil taka undir með mörgum þeim sem hér hafa staðið í pontu fyrr í dag að landsbyggðin skal ekki gjalda þess fyrst allra að skorið verði niður. Hún tók síst þátt í þeirri þenslu sem var hér á liðnum árum og hún hefur jafnframt orðið fyrir hvað mestu áfalli á undanförnum árum þegar kemur að verðgildi heimila. Það hefur nefnilega gleymst í allri umræðunni. Menn súpa hveljur yfir 30–40% verðfalli á húseignum hér í Reykjavík í kreppunni en þetta er alþekkt úti á landi. Menn reisa þar hús en jafnóðum og þeir ganga inn í nýju húsin sín fellur verðgildi þeirra húseigna um 70%. Það er aldrei í umræðunni á Íslandi en þetta þykir sjálfsagður hlutur úti á landi. Þetta verðum við að hafa í huga.

Að lokum, frú forseti. Margt í þessu frumvarpi sker í augun og þarf að laga. Ég vil nefna eitt vegna þess að margir hafa nefnt prósentur. Á bls. 102 í fjárlagafrumvarpinu er kveðið á um umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra barna. Það þýðir að ríkið vill að foreldrar fatlaðra barna minnki þjónustuálag ríkisins með því að taka þá þjónustu á sig og fá að einhverju leyti greitt fyrir. Það eru þó ekki stórar upphæðir, fjarri því. Þennan lið á að skera niður, gott og vel, en hvað á að skera mikið niður? Það á að skera umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra barna niður um 24,6%. Ég nefni þetta bara sem eitt dæmi um að þetta frumvarp er alls ekki gallalaust og það þarf að laga. Ég vil líka nefna Framkvæmdasjóð fatlaðra en hann er tæknilega gjaldþrota samkvæmt þessu frumvarpi.

Frú forseti. Fyrst og síðast held ég að þetta frumvarp verði að kalla yfir okkur ný vinnubrögð og ákveðna samstöðu hér í þinginu um að í stað þess að rífast í pontu alla daga leitum við sameiginlegra leiða til að komast út úr þessum ógöngum. Ég hampa öllum góðum tillögum en þá skulu þær líka koma fram, við megum ekki tala okkur niður. Við skulum tala okkur upp úr þessum vanda, öll sem eitt.