138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:42]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal talar um furðulegar hugmyndir. Við lifum furðulega tíma og förum ekki í neinar venjulegar aðgerðir til að koma okkur út úr þeim ógöngum sem við erum í. Við þurfum mjög róttækar aðgerðir og þær munu koma við alla. Halda menn að sú efnahagskreppa sem blasir við Íslendingum í dag komi ekki við alla með róttækum hætti? Allir hljóta að finna fyrir því. Ríkið getur hins vegar með sínum jöfnunaraðgerðum stýrt hvernig þetta kemur við þjóðina, einstaklinga, hagsmunasamtök og fyrirtæki o.s.frv. á komandi vetri.

Ég tel að e.t.v. sé hægt að reikna það þannig út að sú aukna skattheimta sem blasir við sé ekki langt frá því að vera sú sama og var við lýði í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á árunum 2003–2004. Ég held að við séum ekki langt frá því og þá hafði þjóðin það ágætt. Nú þurfum við hins vegar að leita allra leiða til að stoppa upp í þetta gat sem fjárlagagatið er. Það verður gert með skattheimtu sem kemur við alla, mismunandi mikið vonandi. Það mun bitna á stofnunum ríkisins, misjafnlega mikið, en umfram allt verða þetta að vera tímabundnar aðgerðir vegna þess að við munum koma okkur út úr þessu. Það þurfum við að gera hratt og vel til að líflínan til útlanda, lánin, verði að veruleika.