138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni kærlega fyrir ágætt innlegg í þessa umræðu. Hv. þingmaður minntist í sinni ræðu á að hann væri vinstri grár þegar kæmi að því að byggja upp í atvinnulífinu. Það er ágætt að heyra að einhver í þessum ríkisstjórnarflokkum tali fyrir því að farið verði í atvinnuuppbyggingu en mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann sjái þess stað í þessu fjárlagafrumvarpi að reynt verði að stuðla að því að hjól atvinnulífsins komist af stað. Hvar er að finna stoð fyrir því í þessu frumvarpi? Er hv. þingmaður kannski einn um þessa skoðun í ríkisstjórnarflokkunum?

Jafnframt langar mig að minnast aðeins á þennan flata niðurskurð sem hv. þingmaður kallar stjórnsýsluleti. Telur hann þá að þetta frumvarp beri einkenni þess að ríkisstjórnin sé haldin stjórnsýsluleti? Það væri ágætt að fá það skýrt fram.

Hv. þingmaður talaði um þau grunngildi sem beri að virða en ég er talsvert áttavillt við lesturinn á þessu frumvarpi hvaða grunngildi það eru sem ríkisstjórnarflokkarnir tala um að verja. Þegar maður tekur að sér að skera niður verður að mínu viti að hafa einhverja stefnu. Sú stefna verður að birtast í þeim aðgerðum sem lagðar eru fram. Það mega ekki vera handahófskenndar aðgerðir sem enginn skilur og virðast helst miða að því að drepa niður atvinnulífið enn frekar og leggja auknar álögur á heimili landsins. Hver er stefnan að mati hv. þingmanns? Nú var hann hafður með í ráðum þegar þetta frumvarp var smíðað, ekki við í stjórnarandstöðunni, þannig að ég óska eftir svari við þessum spurningum.