138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta um að upplýsa mig um hvaða hæstv. ráðherrar eru í húsi. Mér þykja þeir heldur fáir á bekkjunum við 1. umr. fjárlaga en það geta komið upp atriði sem nauðsynlegt er að ræða við hæstv. ráðherra. Ef frú forseti gæti kannað það fyrir mig.

Maður hefur áhyggjur af hæstv. ríkisstjórn sem er í öndunarvél með stöðugleikasáttmálanum. Það verður heldur slæmt fyrir íslenskt þjóðfélag að þurfa að búa við það ofan á allt annað að hafa ríkisstjórn sem er eins hálfköruð og sú sem nú situr um þessar mundir. Mig langar dálítið til að ræða það á þessum skamma tíma sem við höfum í 1. umr. Okkur er vandi á höndum að ræða svo flókið mál sem fjárlagafrumvarpið er á svo skömmum tíma.

Frú forseti. Ertu búin að fá upplýsingar um hvaða ráðherrar eru í húsi?

(Forseti (SF): Forseti er að kanna málið í augnablikinu og mun koma því á framfæri við fyrsta tækifæri.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir það. Þess vegna mun ég í þessari ræðu minni einungis fara yfir þá stóru drætti sem eru í fjárlagafrumvarpinu og kannski ekki síst hvaða aðferðafræði er höfð í hávegum við samningu þessa frumvarps. Þá vil ég einnig spyrjast fyrir og benda á hvaða aðrar leiðir væri hugsanlega hægt að fara. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að það skipti miklu máli að menn vinni saman að því að reisa landið upp aftur. Ekkert er mikilvægara fyrir þá sem eru í þessum sal en einmitt það, að gera allt sem hægt er til að koma íslensku samfélagi sem fyrst á fætur. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir virðist því miður opna margar dyr sem við vitum ekki hvert liggja. Ágreiningurinn og skoðanamunurinn meðal ráðherranna í ríkisstjórninni er ekki til að vekja með manni sérstaka ró um það á hvaða vegferð hæstv. ríkisstjórn er. Þau stefnumarkandi skilaboð sem fram koma í þessu frumvarpi og sæta tíðindum eru helst breytingar á tekjuskatti einstaklinga. Þær eru algerlega óútfærðar og samkvæmt frumvarpinu eigum við von á því að einhvern tímann í haust munu önnur frumvörp líta dagsins ljós sem munu greina frá breytingum á skattkerfinu þannig að þessir 40 milljarðar sem eiga að leggjast á einstaklingana jafnist niður á fólkið með einhverjum hætti sem við þekkjum ekki. Öll svona óvissa við þær aðstæður sem nú eru er einungis til vekja ugg í brjósti fjölskyldna í landinu. Ég verð að segja alveg eins og er, með vísan til þessa stöðugleikasáttmála sem menn bundu miklar vonir við í sumar og þar sem atvinnurekendur féllust á 45% skattahækkun og 55% niðurskurð með verkalýðshreyfingunni og ríkisstjórninni, að mér þykir menn fara heldur léttilega yfir það þegar fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 47% á skattahliðinni, eins og 2% skipti engu máli. Það eru heilir 12 milljarðar til viðbótar sem á að leggja á einstaklinga í þessu landi ofan á allt annað sem á þeim hefur dunið að undanförnu. Þetta er ekki fyrsta skattahækkunin á þessu ári. Fyrrverandi ríkisstjórn, sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að, hækkaði tekjuskatta um áramótin. Áfram hefur verið haldið í skattahækkunum og nú sjáum við fram á stórar skattahækkanir sem við vitum ekki hvernig verða.

Mér þætti gaman að vita hvers konar skattbreytingar þetta eru sem við erum að horfa á, hvaða breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga. Mig langar líka til að spyrja að því, þótt það sé ekki nefnt í frumvarpinu held ég að það sé samt ástæða til að spyrja að því, hvort við eigum von á frekari skattheimtum á einstaklinga. Þá á ég ekki síst við hvort einhver áform eða umræður séu um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja á eignarskatta. Þetta skiptir máli fyrir okkur þegar við förum í þessar miklu skattahækkanir.

Ég varð óskaplega fegin þegar eignarskattarnir voru aflagðir og ég vona að ég muni ekki þurfa að horfa upp á það á næstu mánuðum að þeir verði lagðir aftur á ofan á allt annað sem á undan er gengið. Mér líst illa á það. Við vitum alveg á hverjum þeir skattar munu lenda. Þeir mundu auðvitað lenda á eldra fólkinu nr. 1, 2 og 3 og þeir munu líka lenda á þeim sem í grandaleysi ákváðu að borga niður skuldir sínar og eiga nú að borga brúsann af þessu öllu saman. Til þess eru þessir eignarskattar ef þeir eru boðaðir. Þeir lenda verst á þeim sem síst skyldi. Ég vil ekki sjá neina eignarskatta. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi tekið eftir því að það er mikil andstaða hjá þingmönnum við setningu eignarskatta. (Fjmrh.: Koma þeir sérstaklega illa við þig?) Þeir koma sérstaklega illa við eldra fólk. Ég er ekki orðin svo gömul enn þá en það endar sennilega með því. Ég vona að maður verði gamall og þá lendir maður sennilega í að borga þá.

Það er þessi aðferðafræði um að leggja endalaust á aukna tekjuskatta sem mér líst illa á vegna þess að mér finnst að við verðum að reyna að auka skatttekjurnar með því að breikka og dýpka skattstofnana. Við verðum að koma súrefni inn í atvinnulífið. Áform ríkisstjórnarinnar í þessu fjárlagafrumvarpi eru að draga mikið úr framkvæmdum, þá er ég að tala um vegaframkvæmdir og framkvæmdir á vegum opinberra aðila. Þau munu hafa margfeldisáhrif. Það má alveg leiða líkur að því að beinlínis sé með þeim aðgerðum verið að auka á atvinnuleysið. Ég held að það ástand sem er núna í byggingariðnaði hjá verktökum, arkitektum og hönnuðum sé svo slæmt að ekki sé á það bætandi að draga úr öllum framkvæmdum á vegum opinberra aðila eins og mér sýnist frumvarpið nánast gera ráð fyrir, að draga svo herfilega úr samgönguframkvæmdum eins og þarna kemur fram.

Mér sýnist að ekki verði hægt að halda úti nýju útboði í vegagerð. Ég held að menn verði einungis að halda áfram með þau verkefni sem þegar hafa farið af stað. Ég býst að það muni koma illa við bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti um allt land og draga þróttinn úr þeim fáu aðilum sem eftir eru á þessum markaði.

Mig langar líka til að velta fyrir mér niðurskurðinum. Ég vil að það komi skýrt fram að það er ekkert grín að skera niður, það dettur engum í hug. Við vitum að við þurfum að gera það en þegar svona gerist eins og þetta högg sem við höfum orðið fyrir núna spyr maður sig að því hvort við eigum ekki að velta fyrir okkur hvert hlutverk ríkisins er og hvað það er sem ríkið á að taka að sér. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði áðan að hann liti ekki svo á að um flatan niðurskurð væri að ræða í fjárlagafrumvarpinu. Auðvitað er verið að skera niður nánast á hverjum einasta pósti. Mér fyndist áhugavert við þessar aðstæður að skoða hvort við ættum að fara í núllstillingu á ríkisrekstrinum og reyna að átta okkur á því hvað ríkið þarf nauðsynlega að gera og hvað það þarf nauðsynlega ekki að gera og draga þá kannski úr kostnaði hvað það varðar.

Ég held að sú mikla áhersla sem fram kemur í frumvarpinu um að koma þurfi ríkisrekstrinum mjög hratt til baka aftur í gott horf og það er náttúrlega á grundvelli samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn — ég held að við þurfum líka að hafa í huga hvað það kostar fyrir okkur að koma ríkinu í þetta góða horf á þessum tíma, hversu miklar fórnir Íslendingar eru búnir að færa til að það náist fram. Ég held að það skipti kannski ekki svo óskaplega miklu máli að ríkisreksturinn sé kominn í jafnvægi eftir þrjú ár ef við erum öll meira og minna komin á hnén í millitíðinni. Allt þetta þarf að skoðast í samhengi að mínum dómi. Ég held að þess vegna sé mjög mikilvægt fyrir hv. fjárlaganefnd að skoða sérstaklega hvernig eigi að fara í þennan niðurskurð og hvort hægt sé að fara í hluti með öðrum hætti en gert hefur verið.

Margoft hefur komið fram að það hafi verið of mikil þensla í ríkisrekstrinum á undanförnum áratug. Ég hygg að hann hafi verið mun meiri en menn höfðu kannski almennt áttað sig á. Ég segi fyrir mig að menn fóru fullbratt í því á fyrri árum að þenja út ríkisreksturinn og þá er ekki síst við minn flokk að sakast. Þess þá heldur er ástæða til að skera niður núna þegar á þarf að halda og draga úr því sem mest er til að vernda heimilin í þessu landi. Það er ekki hægt ofan á þessa miklu erfiðleika sem dunið hafa.

Þegar maður horfir á þessar ágætu tillögur — ég verð að segja um tillögu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að hún er mjög gott innlegg inn í þann vanda sem skuldir heimilanna eru í. Á sama tíma á að leggja óheyrilega skatta á einstaklingana á næstu vikum og mánuðum og enn og aftur hefur maður ekki hugmynd um hvernig þeir muni leggjast á fólkið. Hvernig leggst þetta á millitekjufólk eða ungt barnafólk? Ég er ekki viss um að þetta fólk geti borgað þessa skatta. Ég er ekki viss um að venjuleg fjölskylda hafi efni á eða geti hreinlega staðið undir þessum sköttum sem á það á að leggja. Mér finnst að það verði að líta á þetta í samhengi. Það verður að koma hlutunum af stað aftur og það hefur gengið allt of hægt. Auðvitað vitum við það og hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað að hlutirnir hafa gengið hægt af ýmsum ástæðum en það verður að fara að koma þessu af stað aftur. Við megum ekki lenda í því að það verði ófriður á vinnumarkaði en ég get ekki betur séð en það sé óumflýjanlegt miðað við t.d. orð Kristjáns Gunnarssonar, formanns Starfsgreinasambandsins, í dag (Forseti hringir.) um að hér muni allt verða í uppnámi út af þessum stöðugleikasáttmála sem nú er kominn í öndunarvél.