138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:06]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ágætar spurningar sem hv. þingmaður ber fram. Það er alveg rétt að margt af því sem við erum tala um núna snýr dálítið að því hvernig við nálgumst viðfangsefnið á vettvangi stjórnmálanna.

Ég held að alveg óumflýjanlegt sé að skera verulega niður en það þarf líka að afla aukinna tekna. Mér finnst hafa verið lagðir töluverðir skattar nú þegar á almenning í landinu eftir að hrunið varð. Ég segi eins og er að mér finnst alltaf mjög dapurlegt og leiðinlegt satt að segja — og ég ætla ekki síst að gagnrýna Samtök atvinnulífsins fyrir það — hvað menn hafa tekið illa í þær hugmyndir að breytingum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram um skattlagningu á inngreiðslur í lífeyrissjóði. Ég held að það sé skylda okkar við þær aðstæður sem nú eru, þegar brúa þarf svona stórt bil, að skoða allar hugmyndir og fara rækilega yfir hvort þær muni gagnast í þeim vanda sem er. Ekki alltaf að henda þeim út af borðinu vegna þess að pólitískir andstæðingar koma með þær og þá sé ekki hægt að líta til þeirra. Mér finnst það ekki gott, ég tala nú ekki um þegar verið er að fara fram á, og undir það hefur verið tekið af hálfu stjórnarandstöðunnar, að koma að borðinu og hjálpa til. Menn hafa komið fram með hugmyndir sem geta aukið verulega tekjur fyrir þjóðfélagið en þá er það bara slegið út af borðinu, svo hratt sem það varð. Ég vona að menn fari að skoða það aftur og líti ekki fram hjá því.

Hvernig er framkvæmdum háttað og í hvaða verkefni er farið? Það er alveg ljóst að við þær aðstæður sem nú eru uppi borgar sig að fara í þær framkvæmdir sem skila okkur eins miklu og hægt er inn í þjóðarbúið til baka. Ég held að það sé alveg ljóst.

Varðandi tónlistarhúsið, hvernig það allt fór af stað og hvernig með það á að fara þá er það svo að tónlistarhúsið er hálfkarað við höfnina. Viljum við hafa það þannig? Er það skynsamlegt? Ég er nefnilega ekki alveg viss um að ég sé sammála mönnum um það.