138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé komin með kristalkúlu og farin að sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn svona fljótt, ég átti nú ekki von á því.

Um þessar spurningar vil ég segja strax í upphafi að ég held að það sem við þurfum náttúrlega að velta fyrir okkur líka, í sannleika sagt, er hvernig og hversu gerlegt það er fyrir íslensk heimili að standa undir þessum byrðum. Þegar maður lítur á fjárlagafrumvarpið og sér svona mikla hækkun á tekjusköttum, 39%, þá er ekki úr vegi, ég tala nú ekki um vegna þess að þetta er ekki útfært enn þá og við eigum enn eftir að sjá hvernig þetta leggst niður, að menn spyrji sig að því hvernig heimilin eigi að standa undir slíku.

Ég ætla að vinda mér í að svara spurningunni um eignarskattinn og ætla að svara henni fljótt og vel. Ég er alfarið á móti eignarsköttum.