138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo langt sem það nær þarf ég engin pólitísk þægindi heldur. Ég held að menn séu að reyna að róa í sömu áttina með það. En mig langar samt að nota tækifærið fyrst hæstv. fjármálaráðherra — ja, hann á væntanlega ekki eftir að koma aftur upp í pontu, en ég vil samt spyrja hæstv. ráðherra, ef hann getur komið að því í lokaorðum sínum, hvernig þetta standi núna gagnvart lífeyrissjóðunum. Hvernig standa viðræður um hvort þeir séu tilbúnir til að koma inn í ákveðin verkefni? Hvaða verkefni eru það sem stjórnvöld eru að ræða við lífeyrissjóðina um að þeir geti hugsanlega farið í? Ég vil segja fyrir mitt leyti að í því efni held ég að skipti miklu máli að reyna að velja verkefni sem eru til þess fallin að setja sem mest súrefni inn í samfélagið. Það væri virkilega fróðlegt fyrir okkur í allri þeirri vinnu sem fram undan er að fá nánari upplýsingar um það hvernig þessari vinnu reiðir fram. Þetta skiptir líka máli gagnvart stöðugleikasáttmálanum, allri þeirri vinnu. Ég er viss um að menn binda töluvert miklar vonir við lífeyrissjóðina, þó að ég vilji samt sem áður vara dálítið við því að menn séu of bjartsýnir á getu lífeyrissjóðanna. Menn mega passa sig á því að slátra ekki gullkálfinum sínum, en samt sem áður væri mjög fróðlegt ef hæstv. fjármálaráðherra gæti tekið að sér að svara spurningunum.