138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég er að stíga mín fyrstu skref í stjórnmálum. Ég verð að segja að ég get ekki séð annað gagnvart þeim vanda sem blasir við í ríkisbúskapnum en að augljóslega verði að gera tvennt: Að skera niður og hækka skatta. Ég vil að þetta sé alveg skýrt í upphafi máls míns. Ég hef engar aðrar lausnir á 100 milljarða kr. vaxtareikningi sem nú blasir við ríkissjóði, ásamt minnkandi tekjum, en fara í aðgerðir af þessu tagi, niðurskurð og skattahækkanir. Ég er hins vegar ein eyru gagnvart öllum öðrum hugmyndum. En við þurfum á þessum tímapunkti, þetta er bara 1. umr., að ræða hvernig þær skattahækkanir eru og hvernig niðurskurðurinn verður.

Mig langar að fjalla um þetta almennt á þeim tíu mínútum sem ég hef. Málið fer núna til fjárlaganefndar í nefndarvinnu og mér finnst að þar verði að hafa nokkra hluti að leiðarljósi. Þegar ég les fjárlagafrumvarpið og fylgiskjölin finnst mér að forgangsraða þurfi betur, það þarf einfaldlega að forgangsraða meira. Ég er alveg sáttur við þær línur sem lagðar voru, að minna skyldi skorið niður til velferðarþjónustunnar og meira skorið niður til stjórnsýslunnar en ég held að það þurfi að forgangsraða af meiri ákveðni. Ég vil gera skýrari greinarmun á t.d. málefnum fatlaðra og rekstri sendiráða. Ég vil að við höfum kjark til að segja að við skerum ekki niður til umönnunar fatlaðra svo dæmi sé tekið. Það var gert í niðurskurði fyrir ári, mér finnst það skynsamlegt. Ég held að við verðum að fara í gegnum fjárlögin með það í huga að sums staðar er einfaldlega þörf á ákveðinni grunnþjónustu sem við verðum að veita. Við verðum að reyna eftir fremsta megni að komast í gegnum kreppuna án þess að skera þá þjónustu niður. Allt annað skerum við niður fyrst. Við þurfum að skilgreina þetta.

Við þurfum líka að tileinka okkur sanngirni í þessari vinnu. Til dæmis hafa margar ríkisstofnanir verið duglegri en aðrar í því að skera niður hingað til og við verðum einhvern veginn að kunna að umbuna þeim stofnunum. Kannski er þetta óvinnandi vegur en við verðum að reyna. Ríkisútvarpið hefur t.d. staðið í miklum niðurskurði og við verðum að kunna að þakka fyrir það. Svo verðum við líka að hafa sanngirnissjónarmið að leiðarljósi gagnvart stofnunum sem hafa búið við viðvarandi skekkju um árabil, eins og t.d. Landbúnaðarháskóli Íslands, sem hefur haft skekkju í reikningi sínum nánast frá upphafi þegar hann var stofnaður. Honum er því erfiðari stakkur sniðinn en öðrum ríkisstofnunum í að skera niður þó svo stjórnendur þar hafi fullan skilning á verkefninu. Við verðum að kunna að gera ákveðinn greinarmun í slíkum málum.

Í þriðja lagi verðum við að hafa það að leiðarljósi að eyðileggja ekki atvinnutækifæri, reyna að gera atvinnulífinu ekki erfitt fyrir. Minnst var á ferjuna Baldur í umræðunni áðan, félagi minn hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði það. Atvinnulíf á suðurfjörðum Vestfjarða stólar á þær ferðir og við verðum að vera fólk til að reikna það út hvað við missum mikið út úr þjóðarbúskapnum með því að skera niður af þessu tagi í ferðum Baldurs yfir Breiðafjörð.

Í fjórða lagi verðum við — ég les það í fylgiskjölum með fjárlagafrumvarpinu að menn ætli sér að gera það, en við verðum að gera það af einurð og festu — að spyrja grundvallarspurninga. Það er kallað á fræðimáli að núllstilla ríkisbúskapinn, það er ein leiðin til að spyrja grundvallarspurninga en það er bara ein leið til að spyrja — ja, nú höfum við 460 milljarða eða svo í tekjur, hvað getum við gert fyrir þann pening? Slíkar spurningar blasa við okkur. Þær eiga að vera grundvöllurinn að einhvers konar langtímaáherslu og plani ríkissjóðs sem heldur. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Þetta segi ég vegna þess að í þessu verki hefur okkur algerlega mistekist. Til dæmis á árabilinu 2007–2009 þegar hagfræðingar voru hver á eftir öðrum að vara ríkissjóð við og draga þyrfti saman, en farið var í gríðarlega útgjaldaaukningu, allt upp undir 50% hjá sumum ráðuneytum. Þetta var engin fyrirhyggja, það var ekkert langtímaplan og við súpum seyðið af þessu að einhverju leyti núna. Því er ekki seinna vænna að fara að tileinka okkur þau vinnubrögð í ríkisbúskapnum að horfa til lengri tíma. Ég held að sú aðferðafræði sé líka mikilvæg til að auka skilning fólks og trú á þeim fjárlögum sem blasa við. Þetta eru blóðug fjárlög og þau eru ekki sett fram í neinu gamni. Þau eru sett fram vegna þess að vandinn er gríðarlegur. Ég held að almenningur yfir höfuð hafi alveg skilning á því að vandinn er gríðarlegur en sá skilningur getur fokið út um gluggann, t.d. ef fólk trúir því ekki út af hugsanlegu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, og mér finnst vel mega gagnrýna ríkisstjórnina fyrir aðgerðaleysi á sumum sviðum, að það muni ekki birta til í ríkisbúskapnum, þá mun skilningurinn minnka á þessum aðgerðum. Það verður að vera trú á því í landinu að birta muni til og þess vegna þurfi aðrar aðgerðir samfara þessum niðurskurði og skattahækkunum að vera þess eðlis að þær auki þá trú.

Óvissan er gríðarleg í þessu fjárlagafrumvarpi. Forsendur þess eru markaðar gríðarlegri óvissu. Á sama hátt og ég var frekar svartsýnn í góðærinu og hafði litla trú á þeim gerviuppgangi sem þá var í þjóðfélaginu ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýnn í kreppunni. Ég held að það sé ekkert annað í boði fyrir íslenska þjóð, sérstaklega út af því hvað óvissan er mikil. Þarna reynir á ríkisstjórnina, að reyna að snúa öllum þeim óvissuþáttum okkur í hag. Þetta lýtur að forsendum fjárlagafrumvarpsins. Hversu miklu eiga skattahækkanirnar að skila? Sjálfstæðismenn hafa í þingsal gagnrýnt mjög skattahækkanir. Ég tek undir áhyggjur þeirra um að verulegar skattahækkanir, ef ekkert annað er að gert til að örva hagkerfið, muni hugsanlega á endanum ekki skila miklu. Þetta held ég að allir sjái. Þá mundi ég gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún taki alvarlega allar þær hugmyndir sem t.d. framsóknarmenn hafa sett fram um að örva hagkerfið. Við höfum haldið því fram að leið til að örva hagkerfið sé að reyna eftir fremsta megni að létta skuldabyrði almennings vegna þess að allir sjá að mjög erfitt er að skattpína almenning sem er skuldum hlaðinn. En í skuldunum og endurskipulagningu þeirra eins og að heitir núna liggur hugsanlega leið til að örva hagkerfið, koma því af stað og þar með fá aukaskatttekjur. Í þetta þurfum við að fara af festu og hæstv. félagsmálaráðherra er byrjaður að opna augun gagnvart slíkum málflutningi en það þarf að gera meira.

Svo skiptir máli hvernig til tekst í atvinnusköpun. Ég verð að segja fyrir mitt leyti og mína parta að mér finnst umræðan um atvinnusköpun í þingsal afskaplega einsleit. Það er bara einblínt á Helguvík og Bakka. Mér finnst ótal spurningar blasa við hvað varðar þau uppbyggingaráform, t.d. sú grundvallarspurning hvort til sé orka í landinu fyrir orkufrekan iðnað af slíkri stærðargráðu. Auk þess finnst mér blasa við sú áleitna spurning hvort orkuframleiðslufyrirtækin, eins og Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur, séu einfaldlega með fjármuni eða aðgang að fjármunum eins og staðan er núna til að fara í virkjanaáform á þessu tagi. Því mundi ég vilja skora á hæstv. ríkisstjórn að reyna að tileinka sér fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu. Maður heyrir af því í sívaxandi mæli að áherslan á áluppbyggingu eingöngu sé farin að há uppbyggingu á öðrum sviðum. Fulltrúar annarra iðngreina fyrir t.d. sólarkísilverksmiðjur, gagnaver, litíumverksmiðjur, álþynnuverksmiðjur, og ég get haldið áfram, framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti svo dæmi sé tekið, hafa spurt innan lands hvort þeir hafi aðgang að orku og svarið er nei. Orkan virðist vera frátekin. Við þurfum í atvinnuuppbyggingunni að fara að snúa þessu skipi. (Gripið fram í.) Ég hef oft sagt þetta svo ég svari þessari upphrópun. Þetta er einarðlega mín skoðun og ég held að þetta sé algert grundvallaratriði. Eins eru óvissuþættir um t.d. gengið, ef það skyldi styrkjast um 30%, og við framsóknarmenn höfum lagt fram hugmyndir í þeim efnum, þá mundi ýmislegt breytast.