138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:43]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Það er einmitt mergurinn málsins að þeir útreikningar sem þurfa að liggja að baki þeim tillögum sem lagðar eru fyrir Alþingi í formi frumvarps — það er verið að vinna að þeim útreikningum núna hvað varðar löggæslu í þeim starfshópi sem er að störfum. Þessi vinna byrjar í rauninni á því að hugmyndin er mjög snemma kynnt þeim sem hún snertir einmitt til að gefa mönnum tækifæri til að koma að þessu og vinna að því hvernig á að hagræða. Það liggur fyrir að við þurfum að hagræða og það er haft að leiðarljósi, þ.e. sú hagræðingarkrafa sem gerð er.

Hvað varðar verkefnið sem fyrirhugað er að taka af sýslumönnum, jú, það er rétt að verið hafa uppi áform um að taka tryggingarumboð af sýslumönnum. Einnig hef ég heyrt að sveitarfélög gætu hugsanlega haft hug á að taka verkefni líka af sýslumönnum og ég segi: Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki hægt að halda sýslumönnum en taka af þeim verkefni.