138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur tekist mjög vel til með uppbyggingu sýslumannsembætta úti um landsbyggðina, m.a. með þeim hætti að færa til þeirra verkefni sem þau höfðu ekki áður. Þess vegna harma ég það að með þessu fjárlagafrumvarpi skuli horfið frá þeirri uppbyggingarstefnu sem áður hafði verið mörkuð.

Það fer ekkert á milli mála að sú ákvörðun sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu mun veikja sýslumannsembættin úti um landið. Það þýðir ekkert að tala eins og þessu verði öllu saman reddað með einhverjum útibúum. Við þekkjum reynsluna af því, sporin hræða.

Dettur t.d. einhverjum í hug að sú mikla uppbygging sem hefur orðið hjá til að mynda sýslumannsembættinu á Blönduósi, þar sem nú starfa 25 manns, hefði átt sér stað ef Blönduós hefði verið einhver annexía frá til að mynda sýslumannsembættinu á Akureyri? Auðvitað ekki. Hér er farin kolröng leið, viðfangsefnið nálgast eftir rangri aðferð. Í stað þess að reyna að halda áfram að byggja upp þessi sýslumannsembætti og gera þau þar með hagkvæmari er farin þessi gamla leið með þeirri hugsun sem maður hefur oft séð reyndar koma fram um einhverjar hókuspókus-aðgerðir sem ganga út á að veikja þessi (Forseti hringir.) litlu embætti úti á landsbyggðinni af því að það er svo gott að höggva dálítið fjarri sér.