138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, mjög margir eru sammála mér um það að sú aðferðafræði sem hæstv. ríkisstjórn boðar í þessu fjárlagafrumvarpi gagnvart sýslumannsembættunum sé röng. Við þekkjum það einfaldlega úr fortíðinni, sporin hræða. Það er svo oft búið að segja okkur að það muni ekkert gerast, þetta verði allt saman í lagi, þessi embætti sem gegna svona miklu hlutverki víða í byggðum landsins verði ekkert veikari því að það verði einhvers konar útibúastarfsemi.

Það er einfaldlega ekki þannig. Við sjáum á þessu og heyrum það sem hæstv. ráðherra hefur sagt, þetta eru lauslegar hugmyndir. Þær voru fyrst kynntar sýslumönnum rétt viku áður en þetta var gert heyrinkunnugt í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er óunnið mál og ég skora á hæstv. ráðherra að reyna að nálgast þetta viðfangsefni með öðrum hætti. Ég skil vel að það þarf að hagræða og það þarf að spara og það er sjálfsagt að fara í það, en þessi sparnaður og þessi hagræðing á ekki alltaf að bitna á þessum litlu embættum sem skipta svona miklu máli. Við verðum að reyna að horfa til þess að hafa svipaðan háttinn á og hefur verið gert á undanförnum árum, m.a. undir forustu hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar, (Forseti hringir.) um að efla þessi embætti, gera þau hagkvæmari þannig að þau geti mætt eðlilegri hagræðingarkröfu sem sífellt þarf að gera í ríkisbúskapnum.