138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar og útskýringar. Hæstv. ráðherra er með það erfiða verkefni að hagræða. En ég hjó eftir einu sem hæstv. ráðherra sagði og ég held að menn ættu að beina sjónum að hér, hæstv. ráðherra upplýsti að það ætti að færa verkefni, ríkið væri að færa verkefni frá sýslumönnum. Það gerir hæstv. ráðherra miklu erfiðara fyrir að standa í þessu. Þar nefndi hæstv. ráðherra tryggingarnar. Ef það er rétt kippir það grundvellinum undan þessum litlu sýslumannsembættum, og ég tel að verkefni okkar í þinginu sé að koma í veg fyrir það.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út af verkefni sem ég beitti mér fyrir sem heilbrigðisráðherra, að það yrði skoðað að innheimta á Landspítalanum yrði færð yfir á sýslumannsembættið á Blönduósi. Það var (Forseti hringir.) eftir að sýslumenn höfðu vakið athygli mína á þeim þáttum sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég vildi fá að vita: Hvernig hefur nýrri ríkisstjórn gengið að fóta sig með það mál?