138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér þykir ánægjulegt að heyra úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins áhyggjur af velferðarkerfinu í þessu fjárlagafrumvarpi. Mér hefur til þessa fundist sá flokkur gefa því harla lítinn gaum og helst hafa áhyggjur af því að hinir tekjuhærri muni þurfa að bera meiri skattbyrðar en áður.

Hv. þingmaður heldur því fram að hér sé verið að fara í flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Ég verð að hafa mínar efasemdir um það og kalla það verstu leiðina til þess að spara í heilbrigðiskerfinu, enda væri það rétt ef satt væri. Ég kalla þess vegna eftir því að þingmaðurinn tjái sig nokkuð nákvæmar um bestu leiðirnar til þess að spara í heilbrigðiskerfinu. Hann sem fyrrverandi ráðherra er býsna vel heima í þessum málaflokki og þá vil ég einfaldlega að hann tilgreini þætti og liði í heilbrigðiskerfinu þar sem hann telur einsýnt að best væri að huga að niðurskurði og hvar hann telji helst að hægt sé að draga saman með ítarlegri hætti en hann gerði hér í máli sínu.