138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður tjáir sig um afstöðu okkar við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár í desembermánuði sl. held ég að hann misminni nú eitthvað. Ég þykist muna nokkuð vel að við lögðum til tekjuöflun til viðbótar með álagi á hæstu tekjur og fjármagnstekjur upp á sex, sjö milljarða króna. Það gerði betur en að mæta þeim útgjaldabreytingartillögum sem við fluttum sem fyrst og fremst gengu út á að draga úr niðurskurði á nokkrum stöðum þar sem okkur þótti hann tilfinnanlegastur. Með öðrum orðum, við lögðum til sambærilegt aðhald eða sambærileg markmið varðandi niðurstöðu ríkissjóðs og lögin endanlega fólu í sér. Við vorum ekki andvíg því að tekið væri á ríkisfjármálunum. Ég get reyndar viðurkennt núna að eftir á að hyggja hefði átt að gera betur strax um síðustu áramót. Það hefði þurft að fara miklu fyrr af stað. Það má til sanns vegar færa að sveitarfélögin reyndust þarna viðbragðssneggri en ríkið sem fyrst á miðju ári, eftir að ný stjórn hafði tekið við völdum, fór í aðgerðir í ljósi þeirrar stöðu sem þá var orðin.

Varðandi skatta á einstaklinga og tölur sem hv. þingmaður fór þar með hefur hv. þingmanni kannski yfirsést að þar er um breytta framsetningu að ræða. Tölur sem nú koma fram í frumvarpinu eru samtölur fyrir bæði skattlagningu launatekna og fjármagnstekna hjá einstaklingum. Þar fyrir utan þarf að hafa í huga verðlagsbreytingar milli ára, gert er ráð fyrir um 5% verðbólgu auk heilsársáhrifa þeirra skattbreytinga sem urðu á árinu 2009, til þess að fá samanburð hvað varðar áformaðar skattahækkanir að þessu leyti á næsta ári frá árinu í ár. Þar er þar af leiðandi er um talsvert lægri tölur að ræða en hv. þingmaður nefndi. Raunar eru aðlögunaraðgerðirnar í þessu frumvarpi meiri bæði á tekju- og niðurskurðarhlið en gert var ráð fyrir í júní (Forseti hringir.) svo nemur rúmum 20 milljörðum króna, um 11 milljarða meiri sparnaður og 10 milljarða tekjuöflun.