138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mig misminni ekkert varðandi umræðuna í desember í fyrra. Þá voru að vísu stóryrtar yfirlýsingar um það að ef Vinstri grænir kæmust til valda yrði þeirra fyrsta verk að breyta fjárlögunum og síðan átti líka að segja upp samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er liðin tíð og til lítils kannski að ræða það.

Það eru hins vegar fréttir fyrir okkur öll ef hér er ekki um miklar skattahækkanir að ræða. Sömuleiðis eru líka fréttir fyrir okkur ef menn ætla að halda sig innan ramma þess sem samið var um í stöðugleikasáttmálanum. Það er kannski stærsta alvaran í þessu að það er eins og menn telji að skattstofnar séu eitthvað sem endalaust sé hægt að ganga á. Þannig er það ekki. Bak við skattstofna einstaklinga er bara fólk sem er að reyna að bjarga sér. Við þekkjum vanda heimilanna og þær breyttu aðstæður sem eru. Það síðasta sem þetta fólk þarf á að halda eru stórauknar skattálögur. Þetta snýst ekki um neina illmennsku, að reyna að hygla einhverjum hópum. Þetta snýst um það að almenningur í landinu geti bjargað sér.

Það sem þetta frumvarp greinir á við áherslur sjálfstæðismanna er einfaldlega það að við leggjum áherslu á að skattstofnar verði breikkaðir. Það verði fleiri til að greiða skatta. Hér verði framkvæmdir settar af stað. Reyndar var það þannig að ríkisstjórnin skrifaði undir að gera nákvæmlega það. En ríkisstjórnin hefur svikið það. Ríkisstjórnin hefur svikið stöðugleikasáttmálann. Það kemur niður á þjóðfélaginu. Það kemur niður á okkur Íslendingum. Það gerir það að verkum að menn eru hér með fjárlagafrumvarp sem að öllum líkindum mun ekki standast. (Forseti hringir.) Við erum meira að segja í þeirri stöðu að í því eru skattar sem (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra minntist ekkert á eins og orku- og auðlindaskattinn upp á 16 milljarða, sem við fylgjumst spennt með (Forseti hringir.) í fjölmiðlum upp á hvern dag. Hvað segir hvaða ráðherra um það mál í dag?