138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er svona hefðbundinn útúrsnúningur à la hæstvirtur fjármálaráðherra.

Hæstv. fjármálaráðherra er svo ósvífinn að hann heldur því fram að hann hafi staðið við stöðugleikasáttmálann. Ég bara hvet hæstv. ráðherra til að lesa hann. Bara t.d. setninguna, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir samanber minnisblað vegna verklegra framkvæmda, dags. 16.06.2009, o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009.“

1. september 2009. Hér hafa borist fréttir um það að þetta sé varla farið af stað. (Fjmrh.: Hvaða rugl er þetta?) Hvaða rugl, segir hæstv. ráðherra. Hann er búinn að tala við fullt af fólki, er það ekki? Við erum hérna með frétt eftir frétt, hvern einasta dag, um að verið sé að tefja stóriðjuframkvæmdir og orkuvinnslu. Upp á hvern einasta dag. En það eru ekki svik. (Forseti hringir.)