138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Já, virðulegur forseti. Að leggja fram útfærslurnar er nú nokkuð sem ég mun ekki gera fyrir hv. þingmann í þessu andsvari, enda er það auðvitað þess vegna sem málið er lagt fram með þeim hætti að ríkisstjórnin mun þegar líður fram á haustþingið koma með frumvarp með útfærslu á því hvernig þessir 16 milljarðar skiptast. Sumum þeirra aðila sem í hlut eiga hefur raunar þegar verið boðið til viðræðna og samráðs við hæstv. fjármálaráðherra um hvernig að því verði staðið.

Ég held þó að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hér skiptir miklu máli hvernig á er haldið. Það sem við hljótum fyrst og fremst að horfa á er auðvitað samkeppnishæfni landsins. Ég held að við eigum sannarlega að horfa á það að í orkunni erum við býsna samkeppnishæf. Þar kann að vera nokkurt borð fyrir báru til þess að hér leggist fleiri á árarnar en bara venjulegt vinnandi fólk með tekjuskattinum sínum í það að greiða þá stóru reikninga sem við þurfum að greiða. Ég held að það sé líka kostnaður sem er að ryðja sér til rúms í nágrannalöndum okkar og við þurfum að fara vel yfir, kostnaður vegna ýmissa umhverfisgjalda. Við höfum nánast ekkert farið inn á það svið. Það á ekki að þurfa að rýra samkeppnishæfni okkar að fara að einhverju leyti í slíka skattlagningu.

Ég tek undir með hv. þingmanni. Við þurfum að gæta vel að samkeppnishæfni landsins þegar við tökum þessar ákvarðanir. Við eigum líka með fjárfestingarsamningum, samningum um tryggt umhverfi um lengri tíma, að laða hingað fyrirtæki, því að það mun ráða mestu um framtíð okkar. Það er atvinnusköpunin og að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað.