138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þykist hafa nokkra reynslu af uppbyggingu stóriðju hér eftir langa setu í stjórnum bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Ég verð að lýsa mig ósammála hv. þingmanni um þessi atriði er snúa að Helguvík annars vegar og Bakka hins vegar. Ég held ekki að umhverfisráðherra hafi gripið til neinna þeirra aðgerða sem eigi að koma í veg fyrir Helguvík, þó hún kalli eftir því að þar sé eðlilegur og góður framgangsmáti viðhafður. Ég held að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í tengslum við Bakka geti allt eins opnað það tækifæri til atvinnusköpunar fremur en að loka þeim.

Ég held að við eigum sannarlega líka að horfa á aðrar greinar. Ég held að við eigum ekki að hafa sýn okkar svo myrkvaða eins og mér þótti í máli þingmannsins. Ég held að við eigum t.d. að horfa á fjárfestingar sem menn hafa verið að boða hér uppi í Mosfellsbæ í heilbrigðisþjónustu, hér úti á Suðurnesjum í græna geiranum í þessari viku og ýmis þau jákvæðu tengsl sem eru að koma.

En auðvitað þurfum við fyrst og fremst að ljúka endurskoðun (Forseti hringir.) samstarfsáætlunar okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svo við getum lækkað vexti og reynt að koma (Forseti hringir.) frá gjaldeyrishöftunum sem helst standa í vegi fyrir uppbyggingu og eflingu íslensks atvinnulífs.