138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það ber enn á því að menn séu að reyna að lesa út úr þessu fjárlagafrumvarpi að það eigi að beina niðurskurði meira að landsbyggðinni en öðrum svæðum. Þetta held ég að sé ekki rétt lesið. Fyrir það fyrsta er rétt að hafa í huga að sem betur fer er það þannig að landsbyggðin er almennt að breyttu breytanda að komast mikið betur frá þessari kreppu en höfuðborgarsvæðið og helstu þéttbýlissvæðin. Ef við horfum t.d. á atvinnuleysið þá er ástandið almennt til muna betra á landsbyggðinni. Það er höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og kannski Eyjafjarðarsvæðið og Miðausturland þar sem atvinnuleysið er meira en að öðru leyti er það mun lægra á landsbyggðinni. Við sjáum t.d. svæði eins og Vestfirði þar sem atvinnuástandið er tiltölulega mjög gott.

Í öðru lagi má nefna að átaksverkefnin sem svæðisnefndirnar, norðvesturnefndin, norðausturnefndin og þær, settu af stað og fóru af stað á síðasta ári mörg hver, fá að halda sér. Þau eru meðal fárra nýrra verkefna þar sem nýir útgjaldapóstar hafa farið af stað sem ekki er hróflað við við þær erfiðu aðstæður sem eru. Með því er m.a. verið að reyna að styðja við þá starfsemi þar sem eitt og tvö störf voru hér og þar að koma til á grundvelli tillagna frá þeim nefndum.

Hagræðingaraðgerðirnar eins og farið er í þær núna munu ekki síður koma fram hér því nú er landið allt undir. Þetta er ekki í gamla stílnum þegar átti að reyta af mönnum eitt og eitt sýslumannsembætti í afskekktum byggðum eins og stundum var á árum áður og allt varð vitlaust yfir í salnum. Nú er landið allt tekið og þá mun það að sjálfsögðu ekki síður koma fram á höfuðborgarsvæðinu. Ég get nefnt skattinn, ég get nefnt lögregluumdæmi hér, ég get nefnt héraðsdómstólana og fleira í þeim efnum.

Í öðru lagi um það hvaða áherslur eru lagðar til grundvallar þá eru heilbrigðisþjónustunni og félagsþjónustunni gerðar vægari aðlögunarkröfur eða 5%, menntaþáttunum 7%. Og af því að hv. þingmaður nefndi löggæsluna, já, þá er vissulega almenn 10% aðhaldskrafa á dómsmálaráðuneytið en dómsmálaráðherra fær sérstakan pott til að reyna að hlúa að almennu löggæslunni þannig að hún fær að nokkru leyti sérstaka meðferð einmitt vegna mikilvægis þeirra starfa sem þar eru.