138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í beiðni mína að mæta í andsvar og eiga orðastað við mig um þessi mál. En er það rétt skilið hjá mér að stefnan sé rauninni sú að færa þessi verkefni inn í Vinnumálastofnun og sameina hana Tryggingastofnun og fjölga þar með útibúum Vinnumálastofnunar um landsbyggðina? Er það rétt skilið hjá mér? Það er mjög mikilvægt að það komi fram vegna þess að útibú Vinnumálastofnunar eru færri en sýslumannsembættin. Það mætti þá ekki skilja ráðherrann svo að í rauninni væri verið að færa þjónusta fjær fólki, þannig að það komi algerlega skýrt fram.

Ég er ánægð að heyra að hæstv. félagsmálaráðherra skilur mikilvægi þessa málaflokks, það er mjög vel. Ég hef heyrt að ánægjan með þjónustu Tryggingastofnunar og útibúanna hjá sýslumannsembættunum víða um land sé mikil og ég veit að hæstv. ráðherra veit það líka. Það er erfitt að taka ákvörðun sem þessa þar sem þarf að taka þjónustu sem hefur verið sinnt vel og færa hana til. Það er að sjálfsögðu erfitt að gera og þá þarf að liggja fyrir að það sé einhver raunveruleg hagræðing að því.

Þá óska ég eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi hvort útreikningar á þessum aðgerðum liggi fyrir. Hvaða hagræðingu erum við að tala um í þessu tilviki? Er búið að reikna það út eða liggur það enn þá einhvers staðar í skoðun í nefnd?