138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og yfirferð um samgöngumál. Hv. þingmaður talaði um að því miður er það svo oft og tíðum þegar þarf að skera niður í fjárlögum að þá er auðveldara að fara í framkvæmdirnar en reksturinn. Það er alveg rétt. Það gerðum við, ég og hv. þingmaður, þegar við sátum saman í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fyrir ári síðan. Þegar við gerðum fjárlög fyrir þetta ár þá skárum við niður framlög til nýbyggingar vega um 6 milljarða kr. Það var fyrsti niðurskurðurinn. Ég minni á að við erum að detta af dálítið háum söðli að þessu sinni. Það var mikið til framkvæmda og metár bæði 2008 og 2009. Síðan misstum við út 3,5 milljarða núna í sumar þegar þurfti að fara í gegnum fjárlögin sem reyndust ekki rétt. Það voru meiri erfiðleikar og við misstum út 3,5 milljarða.

Síðan er það alveg hárrétt hjá þingmanninum að síðasta höggið, og það er mjög alvarlegt, þegar við misstum út svokallaða kassastöðu eða óráðstafað fé yfir áramót sem var inni hjá Vegagerðinni og var óvenjuhátt þetta árið eða 4 milljarðar. En við verðum að hafa í huga núna að strax í desember á síðasta ári og janúar og febrúar, var lögð mikil áhersla á að koma öllum nýjum verkum sem fyrst í útboð þannig að það voru mjög mörg verk boðin út í upphafi þessa árs þótt samgönguráðherra hafi alveg viljað hafa þau fleiri. En það eru mjög mörg verk í gangi og þau taka til sín mikla peninga.

Virðulegi forseti. Ég kem kannski betur að því í seinna andsvari mínu en staðan er þannig að vegir, viðhald og framkvæmdir munu verða á næsta ári um 0,9% af vergri landsframleiðslu. Það er sama og var árin 2005, 2006 og 2007 í góðærinu. Það er sama og var árin 2001 og 2002 og jafnvel 2003 og 2004 þar sem það var lítið eitt meira þannig að staðan er þessi. En auðvitað er það svo, virðulegi forseti, að samgönguráðherra og landsbyggðarþingmenn og allir þingmenn vilja reyndar alltaf hafa miklu meira til samgönguframkvæmda og það er gott.