138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin svo langt sem þau ná. Ég held að þau hafi varpað nokkru ljósi á það sem ég var að fiska eftir. Hæstv. samgönguráðherra gat ekki staðfest að möguleiki yrði á að bjóða út nokkurt einasta verk sem næði máli á næsta ári. Það eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi sem við förum þá með úr þessari umræðu. Ég held að verkefnið sé að við reynum með einhverjum hætti að breyta þessari ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar því það sjá auðvitað allir að það getur ekki gengið að búa við það að á næsta ári verði þau vegaverkefni ein í gangi sem þegar er búið að bjóða út. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál.

Ég vil líka segja það að tíminn líður, nú er komið fram í október og það eru því miður örugglega ekki mjög miklar líkur á því að þessar lífeyrissjóðaframkvæmdir fari mikið af stað á þessu ári einfaldlega vegna þess að eins og hæstv. ráðherra rakti þá gera þau öll ráð fyrir þessu módeli sem við þekkjum til að mynda úr Hvalfjarðargöngunum þar sem stofna þarf sérstakt félag um bæði byggingu og rekstur þessara vegaframkvæmda sem síðan eiga að standa undir sér með því að rukka inn veggjöld. Ég óttast mjög að ekki verði af þeim framkvæmdum sem vísað hefur verið mjög mikið til og menn höfðu vonir um að gætu farið af stað á þessu ári, þrátt fyrir vonir hæstv. samgönguráðherra.

Við vitum það líka að viðræðurnar við lífeyrissjóðina hafa tafist. Það eru ýmis mál óuppgerð af hálfu ríkisins gagnvart lífeyrissjóðunum svo sem varðandi framvirka samninga sem geta haft mjög mikil áhrif á það hvaða möguleika sjóðirnir hafa til að takast á við þessi verkefni.

Að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau skýra málið, það eru válegar horfur um vegaframkvæmdir á næsta ári. Það liggur fyrir að einu framkvæmdirnar sem eru hugsanlegar eru þá framkvæmdir sem lífeyrissjóðirnir eiga að fjármagna og verða síðan greiddar til baka með notendagjöldum eða veggjöldum.