138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:02]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ég fái lengdan ræðutíma þar sem spurningarnar eru afar viðamiklar en ég mun reyna að skauta yfir þetta hratt og örugglega.

Í sambandi við vinnubrögð við gerð fjárlagafrumvarpsins þá held að forsendur hafi verið kunnar frá upphafi. Við vissum nákvæmlega hvað það var sem við vorum að fara út í. Það er aftur á móti spurning hvort hefði átt að taka hvern einasta lið og bera hann undir viðkomandi fagráðherra. Ég vildi óska að það hefði gefist tækifæri til þess, það hefði verið betra. Þá hefði t.d. þessi misskilningur um auðlindaskattinn ekki farið í loftið. En mig langar til að minna á að það er bara tekið dæmi í frumvarpinu.

Síðan í sambandi við auðlindaskattana geri ég ráð fyrir eins og ég sagði í ræðu minni að þetta verði sanngjarnir skattar og ég get ekki séð annað. Í mínu kjördæmi alla vega eru mjög öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem ég get ekki séð annað en geti tekið á sig sanngjarna skattbyrði eins og heimilin í landinu og kannski ekki síður.

Hv. þingmaður spurði mig um yfirlýsingar þingflokksformanns Vinstri grænna. Mig langar til að áskilja mér þann rétt að þurfa ekki að svara fyrir aðra stjórnmálaflokka. Auðvitað hefði verið gott að búið hefði verið að kynna Icesave áður en skrifað var undir, við getum deilt þeirri skoðun.

Í sambandi við Helguvík þá finnst mér það vera stormur í vatnsglasi. Ég get ekki séð að verkið sé í einhverju ákveðnu uppnámi. Þetta er spurning um ákveðinn hluta. Ég vildi óska þess að þetta hefði ekki komið til á þessu stigi málsins, ráðherra hefði verið búin að gera sér grein fyrir að þarna væri ákveðið sem vantaði upp á í sambandi við umhverfismatið. En svona er þetta og ég get virt hennar faglegu vinnubrögð. Mér finnst það vera fagleg vinnubrögð að umhverfismat sé í góðu lagi.