138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að við þurfum að hafa fagleg og góð vinnubrögð við umhverfismat og allt annað sem við gerum, ég tek alveg heils hugar undir það. En það er hins vegar ekki hægt að líta fram hjá því að úrskurður ráðherrans er náttúrlega alveg með eindæmum. Það sjá það allir sem vilja sjá, enda hafa forsvarsmenn vinnumarkaðarins sagt í fréttum núna í marga daga að þetta sé í raun og veru búið að setja stöðugleikasáttmálann í uppnám. Og ekki bara það heldur hefur líka komið fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins sem ætlar að byggja þarna að þetta er búið að setja fyrsta áfanga á uppbyggingunni sem var klár í uppnám líka. Það lá fyrir að búið var að fjármagna fyrsta áfangann hjá Orkuveitu Reykjavíkur og síðan var fyrirtækið búið að ganga frá fjármögnunarsamningunum sínum. En við þessar aðgerðir, við úrskurð umhverfisráðherra og boðun á orku- og auðlindagjöldum, setur það þetta verkefni algerlega allt í uppnám. Það er því miður þannig.

Ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni að það er gríðarlega hættulegt ef menn taka slíka U-beygju núna akkúrat við þessar aðstæður og eins líka hvernig skilaboðin eru til þeirra sem starfað er með, að henda þessu bara út og spá ekkert í afleiðingarnar áður. Það er svo margt sem stendur í þessu fjárlagafrumvarpi. Menn segja að 1 kr. á kílóvattsstund sé einhver hugmynd. Af hverju eru þá ekki aðrar hugmyndir skrifaðar inn í fjárlagafrumvarpið? Auðvitað er það þetta sem menn hugsa, það gefur algerlega augaleið.

Bara til að árétta það með fyrsta áfanga álversins í Helguvík þá liggur fyrir að þar eru stjórnvöld að skipta um leikreglur í hálfleik, það liggur fyrir að fyrsti áfangi mundi skaffa ríkissjóði hreinar tekjur upp á 7 milljarða og spara ríkissjóði 5 milljarða í atvinnuleysisbætur sem eru þá 12 milljarðar á móti þessum 16 milljörðum sem menn ætla að setja síðan á öll fyrirtækin í sköttum. Ég held að það séu ekki mjög vönduð vinnubrögð við þetta frumvarp.