138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála síðustu orðum hv. þingmanns um að nú sé ekki tíminn til að skoða hlutina frá nýjum sjónarhóli. Ég held einmitt að nú sé akkúrat tíminn til að gera það. Þegar við höfum orðið fyrir svona miklu tekjufalli og staðan er svona slæm þá verðum við náttúrlega, eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir nefndi réttilega í ræðu sinni, að velta við hverjum steini og athuga hvort við þurfum á þessum steini að halda. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég held að það séu alveg ágætisrök fyrir því að það sé gert akkúrat núna.

Það eru nokkrir grunnþættir í íslensku samfélagi sem ég held og ég veit að allir þingmenn eru sammála um að þurfi að gæta sérstaklega, nokkuð sem við Íslendingar höfum yfirleitt verið stolt af. Ég nefni menntakerfið og velferðarkerfið. En við þurfum svo að velta fyrir okkur í öllum málum hvað það er sem við teljum að ríkið eigi að sjá um og hvernig við eigum þá að skapa skilyrði til að sveitarfélögin geti tekið aðra hluti að sér o.s.frv. Mér finnst þetta mjög þörf umræða og ég held að að henni þurfi að koma allir ráðherrar. Ég botna ekkert í því hvernig á því stendur að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn komi af fjöllum með sína málaflokka þegar þeir lesa fjárlagafrumvarpið. Það er alveg gersamlega óforsvaranlegt og ég skil ekki hvernig þetta hefur gerst. Við skulum láta það liggja á milli hluta og horfa lengra fram í tímann. Við eigum að nýta tækifærið núna til að velta fyrir okkur ríkisrekstrinum, þó fyrr hefði verið segi ég nú og ég held að það sé full ástæða til að taka það fram líka.

Hvað varðar hvaða álit ég hef á stöðugleikasáttmálanum þá er það svo að ég held að það sem skipti mestu máli í því sé að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér að verki. Ég hvet ríkisstjórnina til að koma sér að verki og standa við þau stóru orð sem í þessum stöðugleikasáttmála eru.