138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:24]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010, ári eftir íslenskt efnahagshrun þann 6. október 2008. Sjaldan eða aldrei hefur staðið jafnilla á, ef við getum orðað það svo, í íslensku efnahagslífi og frumvarpið ber það að sjálfsögðu með sér.

Við höfum hér drög að fjárlagafrumvarpi ársins 2010 sem er í raun aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum og unnin í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta er aðgerðaáætlun sem miðar að því að frumjöfnuði verði náð árið 2011 og þegar talað er um frumjöfnuð eru fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld ríkissjóðs undanskilin. Síðan er talað um að árið 2013 verði heildarjöfnuði ríkissjóðs náð og þá eru meðtaldar fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld. Þetta er vissulega verðugt verkefni og markmiðið er gott.

Frú forseti. Í pólitík greinir menn á um leiðir að markmiðum. Í þessu fjárlagafrumvarpi kristallast pólitískar leiðir vinstri manna. Þeirra leiðir felast í að hækka skatta og beita að öllu jöfnu flötum niðurskurði. Þeir virðast aldrei skilja að öflugt atvinnulíf og verðmætasköpun er í raun það sem meginmáli skiptir fyrir fólkið í landinu. Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðarkerfisins alls. Það er ekki flóknara en svo.

Ræða formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, gaf þó örlitla von um að Alþingi Íslendinga hefði aðkomu að þessu og frumvarpið gæti hugsanlega tekið breytingum í meðferð þingsins. Það var örlítil von. Hins vegar hafa þingmenn ríkisstjórnarflokkanna talað þannig í dag að maður eygir ekki mikla von um að frumvarpið taki miklum breytingum. Kannski á maður heldur ekki von á slíku þar sem við hægri menn erum í grundvallaratriðum ósammála þeim leiðum sem vinstri menn velja út úr þeirri efnahagskreppu sem við blasir. Við erum í grundvallaratriðum á móti skattahækkunum og flötum niðurskurði og teljum ekki að það muni bjarga Íslandi úr þeim vanda sem við blasir.

Við verðum að breikka skattstofna og auka tekjur og jafnframt að draga úr útgjöldum. Menn hafa sagt hér áður að við verðum að vaxta út úr kreppunni en ekki kafna eins og fjárlagafrumvarpið virðist ætla okkur. Við þurfum að skapa meira en ekki draga saman, sækja í stað þess að verjast. Aukin skattlagning á fólk og fyrirtæki kæfir en eflir ekki. Þess vegna þarf að fara aðrar leiðir.

Frú forseti. Við þurfum að ráðast í gagngera heildarendurskoðun á útgjöldum hins opinbera. Kanna hvað hinn opinberi geiri á að greiða og hvað ekki. Við þurfum að fara í verulegar kerfisbreytingar með það að markmiði að ná niður heildarútgjöldum og jafnframt að verja alla grunnþjónustu. Við þurfum að hafa kjark, hvort sem okkur líkar betur eða verr, til að horfa til ólíkra rekstrarforma á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Ríkið á ekki að þurfa að vera eini aðilinn sem framkvæmir og við hin að þiggja þjónustu, oftast niðurgreidda þaðan með einum eða öðrum hætti. Við eigum að byggja velferðarkerfi fyrir þá sem mest þurfa á því að halda. Aðrir þurfa og eiga að greiða fyrir þá þjónustu sem þeir sækja. Það er ekkert flóknara.

Mýmörg tækifæri liggja í heildarendurskoðun á útgjöldum hins opinbera en til þess að fara þá vegferð þarf kjark. Er kjarkinn að finna hjá núverandi ríkisstjórn? (Gripið fram í: Nei.) Svarið barst úr salnum, frú forseti: Nei. Hefði kjarkinn verið að finna þar lægi þetta frumvarp ekki hér fyrir. Þá hefði verið farið í heildarendurskoðun á útgjöldum og breytingu á þeirri forgangsröðun sem þar ætti að eiga sér stað.

Við þurfum líka hvort sem okkur líkar það betur eða verr — og það hefði líklegast gerst ef við hefðum farið í heildarendurskoðun á útgjöldum ríkisins — að stoppa agaleysi í meðferð ríkisfjármála. Það virðist vera kúltúr á sumum sviðum að líta á fjárveitingar á fjárlögum sem einhvers konar heimild og það sé alltaf í lagi að eyða meiru. Afsökunin er oftar en ekki sú að nægt fjármagn hafi ekki fengist í upphafi. Þessum þankagangi verður einfaldlega að breyta. Hér þarf Alþingi Íslendinga að koma að og hafa mun öflugra eftirlit með framkvæmd fjárlaga en hingað til hefur viðgengist. Flóknara er það ekki. Það virðist ekki sem ráðherrar beri ábyrgð á einstökum sviðum, að þeir og forstöðumenn þeirra gæti þess að virkja eftirlitið innan ráðuneytanna til þess að hafa hemil á því að ekki sé farið fram úr fjárlögum. Þess vegna verður Alþingi Íslendinga að koma hér að. Það er ólíðandi með öllu að litið sé á fjárlög sem heimildir til aukinna útgjalda umfram það sem þar stendur.

Við þurfum einnig að hafa kjark til að íhuga kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrisgreiðslna á þann hátt, eins og sjálfstæðismenn hafa bent á, að skattleggja inngreiðslur í stað útgreiðslna. Það gæti skilað ríkissjóði u.þ.b. 35 milljörðum. Slíkar hugmyndir má ekki slá út af borðinu án vel ígrundaðrar skoðunar. Það er einfaldlega ekki hægt þegar um er að ræða tækifæri til þess að auka tekjur í stað þess að skattleggja fólkið í landinu eins og gert er í dag. Þá verðum við og hv. fjárlaganefnd að hafa kjark til þess að skoða allar leiðir sem í boði eru.

Frú forseti. Þrátt fyrir það sem á undan er sagt er ekkert brýnna nú en rjúfa þá kyrrstöðu og samdrátt sem dregur mátt úr stórum hluta atvinnulífsins og þar af leiðandi flestum heimilum. Við verðum að efla verðmætasköpun og tefla fram atvinnutækifærum í stað atvinnuleysis, draga úr útgjöldum og auka tekjur. Af hverju í ósköpunum skilja vinstri menn ekki þessa einföldu staðreynd? Að verðmætasköpun er undirstaða alls. Öflugt atvinnulíf er undirstaðan.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði boðað áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir en víkur skyndilega af þeirri braut og engar skynsamar skýringar eru á því. Hvað veldur þessum hringlandahætti, frú forseti? Hefði ekki verið ábyrgara að verja áætlanir um uppbyggingu og reyna að kalla frekar eftir liðsinni lífeyrissjóða og öðrum fjárfestum í formi einkaframkvæmda? Nei, menn slá allt út af borðinu.

Togstreita innan ríkisstjórnarinnar tefur alla uppbyggingu og endurreisn. Það eru engar haldbærar skýringar á stefnubreytingu vegna framkvæmda við Bakka og tafaleikur umhverfisráðherra Vinstri grænna um að fella úr gildi úrskurð umhverfisráðherra Samfylkingarinnar um mat á umhverfisáhrifum línulagna til Helguvíkur er í hæsta máta einkennileg stjórnsýsla. (BJJ: Hneyksli.) Maður veltir fyrir sér hvort menn á ríkisstjórnarheimilinu hafi íhugað skaðabótaskyldu ríkisins vegna slíkrar stjórnsýslu. Spyr sá sem ekki veit.

Fyrningarleiðin er boðuð í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Hún veldur ugg. Boðaðir orku-, umhverfis- og auðlindaskattar hafa reyndar ekki verið útfærðir en þeir boða meira en ugg. Hugsanlega gera þeir það að verkum að allir erlendir fjárfestingarkostir sem hugsanlega eru í boði verði slegnir út af borðinu. Það má því segja, frú forseti, að skattstefna núverandi ríkisstjórnar vinni markvisst gegn uppbyggingu og endurreisn íslensks samfélags. Við það verður ekki unað.