138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:40]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Okkur greinir á, hæstv. fjármálaráðherra og mig. Ég vil sjá atvinnu aukast í landinu og atvinnulífið ná fótfestu á nýjan leik til þess að auka tekjur, svo hægt sé að draga úr framlögum í Atvinnuleysistryggingasjóð, til þess að hægt sé að veita fólki atvinnu til þess að skapa tekjur, svo ég segi það enn og aftur. Mér finnst ríkisstjórnin ekki vera að leggja áherslu á þann þátt. Mér finnst hún í aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi, ef eitthvað er, draga mátt úr atvinnulífinu. Þetta fjárlagafrumvarp gerir það. Þar greinir okkur einfaldlega á í lestri og túlkun á frumvarpinu, mig og hæstv. fjármálaráðherra. Það verður svo að vera.

Ég hef hins vegar þá skoðun að öflugt atvinnulíf gegn atvinnuleysi auki tekjur ríkissjóðs og sé farsælla til framtíðar fyrir íslenska þjóð, heldur en horfa til þess að skattleggja atvinnulífið til að við getum átt meira í Atvinnuleysistryggingasjóði, til þess að geta borgað atvinnuleysisbætur. Það er betra að hér sé atvinna, frú forseti, en ekki atvinnuleysi. (Fjmrh.: Atvinnuleysi er komið í boði Sjálfstæðisflokksins.)