138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 og það ber óneitanlega keim af því hruni sem var fyrir ári síðan og er svo sem ekki öfundsvert hlutverk hæstv. fjármálaráðherra að koma fram með fjárlagafrumvarp á þessum tíma. Ég hef margoft bent á það að menn þurfa alltaf að meta þá stöðu sem þeir eru í hverju sinni. Við breytum ekki fortíðinni. Við getum lært af henni, en við breytum henni ekki. Það mættu menn hafa alltaf í huga. Við hvorki breytum hruninu né því sem gert var þar áður, né breytum við Icesave-samningnum sem búið er að skrifa undir, né breytum við því sem gert hefur verið. Við erum í ákveðinni stöðu núna.

Hlutverk fjárlagafrumvarps er afskaplega mikið í þjóðfélaginu, í efnahagslífinu og snertir hvern einasta mann. Með snilld getur fjárlagafrumvarpið snúið við vonlausri stöðu, en á sama hátt getur það drepið atvinnulíf og þjóðina alla í dróma og komið af stað stöðnun og meira að segja getur komist af stað vítahringur sem snýst, niður alltaf hraðar og hraðar til hins verra. Það ber að forðast.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á öllum skuldbindingum ríkissjóðs af því menn eru ekkert með það á hreinu alla daga. T.d. Icesave-samningurinn sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir, hann skuldbindur ríkissjóð með ábyrgðum upp á 700 milljarða. Við þurfum að hafa það í huga. Plús 5,55% vextir í sjö ár sem hlaðast upp og geta sem sagt farið upp í 1.100 milljarða ef verst lætur. Það er ekki getið um það í fjárlagafrumvarpinu. (Gripið fram í: Jú.) Það er alla vega ekki tekið fram sem skuldbinding ríkissjóðs.

Síðan er það B-deild LSR. Þar er talið að séu eitthvað um 300 milljarðar, ég þekki nú ekki nýjustu tölurnar. 300 milljarðar ógreiddir. Í A-deildinni er viðbúið að komi hækkandi iðgjald í ljósi stöðunnar, sem er líka skuldbinding sem ríkissjóður þarf að mæta og getur ekkert að gert, því réttindin eru föst eins og kunnugt er.

Svo er það tónlistarhúsið sem hvergi hefur komið fram og ég hef margoft kallað eftir að fá upplýsingar um hver er skuldbinding ríkissjóðs þar, því ríkissjóður getur greinilega ekki hætt við. Hann tók ákvörðun um að halda áfram.

Lán til Saga Capital með 2% vöxtum, sem er líka ákveðin skuldbinding sem ekki er hér talað um upp á 40 milljarða, ef ég man rétt, og annarra fyrirtækja.

Fyrirhugaðar framkvæmdir sem menn ætla að fara út í eru vegagerð og við háskólasjúkrahús. Ég vil leggja áherslu á það, frú forseti, að það verði þá talið fram sem skuldbinding ríkissjóðs. Ríkissjóður hættir ekkert að nota háskólasjúkrahús þegar búið er að byggja nýtt háskólasjúkrahús þó einhver eigi það annar að nafninu til og forminu til. Það er ríkissjóður sem á endanum borgar alla bygginguna og allan reksturinn. Þannig að ég vil að sú skuldbinding komi fram í lánsfjárlögum eða einhvers staðar.

Það er eins með sveitarfélögin. Þau eru með svona skuldbindingar líka sem því miður hafa ekki verið taldar fram en ættu að vera það í ljósi þess aga sem við krefjumst. Tryggingastofnun er náttúrlega með alveg gífurlega skuldbindingu. Við getum ekki hætt að borga gamla fólkinu lífeyri næstu áratugi, næstu aldir. Rekstur ríkisins er líka skuldbinding sem við getum ekki hætt allt í einu að greiða, laun ríkisstarfsmanna o.s.frv.

En svo á ríkið líka duldar eignir. Óduldar. Þarna eru geymdir skattar í lífeyrissjóðunum. Það eru sennilega 500–700 milljarðar. Það er Landsvirkjun. Rarik. Það mætti t.d. gera samning við Landsvirkjun um afnot af auðlindinni í 50 ár. Það er heimilt að gera þetta í 65 ár. Og síðan mætti selja þá eign og taka þá tillit til kolefnisgjalds og slíkt.

Skólar og vegir og allt slíkt eru náttúrlega eign ríkisins. Sendiráð o.s.frv. Hálendið ... (Gripið fram í: Á að selja það?) Nei, nei, nei, nei, ég er ekkert að tala um að selja þetta, ég er ekki heldur að tala um að borga, ég vil bara að menn geri sér grein fyrir eignunum.

Árið 2009 hefur því miður runnið nærri til enda án þess að menn tækju verulega á vandanum. Það er kannski vegna anna við annað, ég veit það ekki, en það hefur ekki verið mikill agi þar.

Þá komum við að árinu 2010 sem við erum að fjalla um. Það er ljóst að fjárlagafrumvarpið lítur bara á tekjur og gjöld. Það lítur t.d. ekki á skyldusparnað, sem væri möguleiki. Það lítur ekki til sölu eigna, sem væri líka möguleiki. Þar er gert ráð fyrir mjög lítilli sölu eigna.

Það gerir ráð fyrir því að tekjur aukist um 72 milljarða sýnist mér, þ.e. eitthvað um 450 þús. kr. á hvern vinnandi mann, tæplega 40 þús. kr. á mánuði á vinnandi mann sem þegar er laskaður með lækkandi tekjum og atvinnuleysi o.s.frv. Það er mjög illskiljanlegt hvernig menn ætla að skattleggja þetta.

Svo eru orkuskattar upp á 16 milljarða. Það er búið að gera samninga við flest álfyrirtækin, öll nema eitt held ég, um að það eigi ekki að hækka gjöld á þau. Það er ekki gott afspurnar og ekki gott til að auka virðingu og traust úti í heimi þegar menn koma þannig í bakið á fólki, jafnvel þó þessi fyrirtæki hafi grætt á lækkandi krónu að einhverju leyti vegna lækkandi launa hér á landi, mælt í erlendri mynt. Það fælir frá nýja fjárfestingu. Það veikir traust útlendinga á Íslandi yfirleitt og er mjög slæmt. Ég hugsa að það kosti miklu meira á endanum en menn fá í tekjur.

Gjöldin. Það er verið að skera of hratt og maður óttast að skorið verði flatt. Það er verið að lækka bætur. Það er verið að lækka launakostnað án þess að menn fari kerfisbundið í gegnum það. Ég vil að fjárlaganefnd skoði það mjög nákvæmlega hvernig launin verða lækkuð, hvort það verður með launalækkun, uppsögnum eða hlutastörfum. Það er verulegur munur á þessum lausnum. Það þarf að gera þannig að komið sé manneskjulega fram og kostnaður ekki aukinn annars staðar t.d. í Atvinnuleysistryggingasjóði.

Það sem við þurfum að gera núna. Það er að gera meiri kröfur til þjónustu, fá meiri þjónustu, opinbera þjónustu, fyrir minni pening. Það er bara það sem við þurfum að gera t.d. í grunnskólunum og víðar, í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvert hlutverk velferðarkerfisins er. Það er mjög mikilvægt.

Ég tel, frú forseti, mjög mikilvægt núna að allir þingmenn vinni saman að þessu frumvarpi, þó þeir séu í stjórnarandstöðu, þó þeir séu í stjórn. Menn vinni allir af heilindum að þessu frumvarpi, reyni að auka atvinnu eins og hægt er. Það er ljóst að maður sem hættir að vera atvinnuleysingi, hættir að þiggja bætur, hann fer að borga skatta. Hann minnkar halla ríkissjóðs um svona 3–4 milljónir, einn maður sem fær vinnu, ef það eru þúsund manns þá eru komnir 3–4 milljarðar, svo maður tali nú ekki um 10 þúsund manns, þá erum við að tala um 30–40 milljarða sem hagur ríkissjóðs batnar.

Þess vegna er svo mikilvægt að við þurfum að virkja. Við þurfum að veiða meiri fisk ef mögulegt er. Við þurfum að stunda hvalveiðar. Og við þurfum að selja heilbrigðisþjónustu og við þurfum að selja hugbúnað. Við þurfum að gera umhverfi fyrirtækjanna lipurt og létt.

Við þurfum að skoða það að selja eignir. Ég sé ekkert að því að selja Landsvirkjun þegar hún er farin að greiða auðlindagjaldið. Ég sé ekkert að því að t.d. að nýta skatthluta ríkisins, skattaeign ríkisins í lífeyrissjóðunum. Ég sé ekkert að því. Þannig getum við minnkað skuldir ríkissjóðs og minnkað vaxtagjöldin.

Ég sé ekkert að því að menn noti skyldusparnað í staðinn fyrir skatta. Hver er munurinn á því að láta menn borga skyldusparnað í stað þess að þeir borgi skatta? Þeir flytja ekki til Noregs, því þeir eignast eign á móti. Það mætti t.d. nota þá eign til þess að kaupa eitthvað af þessum fyrirtækjum ríkisins, nota skyldusparnað til að kaupa eignir.

Að öðru leyti finnst mér vera bjart fram undan. Kannanir hafa sýnt að 10–20% fyrirtækja og einstaklinga eru í miklum og mjög miklum vanda, en það segir mér líka að 80% fyrirtækja og einstaklinga eru ekki í bráðavanda. Sumir eru í þokkalegri stöðu miðað við allar aðstæður.

Heimilin og fyrirtækin í landinu hafa sýnt alveg aðdáunarverðan sveigjanleika. Sparnaður hefur vaxið. Íslendingurinn hefur breyst úr því að vera eyðslukló Evrópu í það að verða í hópi þeirra sem eru sparsamastir. Og með snjallri stjórn og góðri stjórn efnahagsmála hef ég trú á að við þurfum að brúa kannski tvö til þrjú ár í miklum erfiðleikum eða einhverjum erfiðleikum, en eftir það ætti þjóðin, sérstaklega ef þessi sparnaðarvilji heldur áfram, að vera á virkilega góðri siglingu, vegna þess að hún hefur bæði þekkingu, mannauð og auðlindir til að vinna úr.