138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þessi umræða fer nú brátt að taka enda, en mikilvæg er hún, því hér er um stefnumarkandi plagg af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða. Hæstv. fjármálaráðherra hefur komið inn á það, sem er alveg rétt, að rekstur ríkissjóðs verður mjög erfiður á næstu árum. Gríðarlegar skuldir. Fram hefur komið í umræðunni að vaxtagjöld næsta árs eru um 100 milljarðar kr., sem er 1/5 af tekjum ríkissjóðs hér um bil og ef við tökum skuldir vegna Icesave-samninganna þá eru það um 40 milljarðar a.m.k. til að byrja með í vexti á ári hverju, þannig að staðan er erfið.

Þess vegna finnst mér ég þurfa að fá það á hreint hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji að þessi knappa leið í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé raunhæf. Mér er fyrirmunað að sjá að íslenskt þjóðfélag, ég er ekki bara að tala um íslenskan ríkissjóð í því samhengi, þoli hreinlega þennan hrikalega niðurskurð og þessar miklu skattahækkanir á svona stuttum tíma.

Í frumvarpinu er talað fyrir því að tekju- og eignarskattar á einstaklinga í landinu fari úr 103 milljörðum í 143 milljarða kr. Þetta er hækkun á milli ára á þessum sköttum á einstaklinga upp á hátt í 40%. Ef við bætum við hækkunum á vörum og þjónustu, sem mun líka lenda á almenningi, þá er það frá fjárlögum í ár og gagnvart því frumvarpi sem við ræðum hér, hækkun úr tæpum 53 milljörðum upp í 76. Þannig að hér er um gríðarlegar álögur að ræða gagnvart heimilum og fyrirtækjum þessa lands.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann sjái þá vinnu, nú geri ég mér grein fyrir því að frumvarpið er hér með úr hans höndum, hvort honum finnist virkilega raunhæft að ráðast í svona miklar skattahækkanir á kostnað heimilanna í landinu. Hæstv. ráðherra er væntanlega sammála mér í því að þær skattahækkanir sem hann mælir hér fyrir í dag eru mun meiri en ræddar voru þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður. Ef við ætlum að komast út úr þessu sem ein þjóð þá þurfum við einfaldlega að ganga meira í takt. Menn hafa jafnvel verið með hálfgerðar stríðsyfirlýsingar, forustumenn aðila vinnumarkaðarins, þegar kemur að því að ræða um fjárlagafrumvarpið. Þá hvort sem menn eru að ræða um aukna skatta á heimilin í landinu eða þá tilhneigingu ríkisstjórnarinnar að seinka mikilvægum verkefnum á sviði atvinnumála sem hefðu gefið mikla fjármuni inn í ríkissjóð ef þeim hefði ekki verið seinkað eins og raun ber vitni. Þá er ég að vísa sérstaklega til úrskurðar umhverfisráðherra vegna álversins í Helguvík og reyndar líka þeirra áherslna eða þeirrar stefnubreytingar sem ríkisstjórnin hefur haft gagnvart atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu.

Hæstv. ráðherra hefur kallað eftir því hjá okkur í stjórnarandstöðunni hér að við kæmum með tillögur. Komið með tillögur um það hvernig við eigum þá að vera með lægri skatta á almenning. Þær tillögur hafa komið fram. Hæstv. ríkisstjórn á ekki að standa í vegi fyrir mikilvægri atvinnuuppbyggingu hér í landinu. Hún hét aðilum vinnumarkaðarins fyrir rúmlega 100 dögum að við þeim verkefnum sem væru nú þegar í gangi, þjóðhagslega mikilvægum atvinnuverkefnum, yrði ekki hreyft. Það kæmi mér verulega á óvart ef hæstv. ráðherra kæmi hér upp og mundi halda því fram í sölum Alþingis að ríkisstjórnin hefði staðið við það sem hún skrifaði undir gagnvart aðilum vinnumarkaðarins þá.

Hver er þá staðan í hinu pólitíska landslagi í dag? Það hefur komið fram í dag að við í stjórnarandstöðunni höfum margt við þetta fjárlagafrumvarp að athuga, enda er það eðlilegt þar sem okkur hefur ekki verið hleypt að í þeirri vinnu. Það hefur komið í ljós að meiri hlutinn hjá ríkisstjórninni er nú tæpur, svo vægt sé til orða tekið, í mörgum mikilvægum málum. Ef við þurfum síðan að horfa upp á það að ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni stuðning sinna viðsemjenda, aðila vinnumarkaðarins, jafnvel sveitarfélaganna, hvernig stendur þá þessi ríkisstjórn? Hún stendur veikum fótum.

Ég beini því til hæstv. ráðherra að reyna að nálgast okkur hér í stjórnarandstöðunni betur en gert hefur verið. Þetta er svo sem ekkert fyrsta ræðan sem ég flyt í þeim efnum. Það er ósköp eðlilegt að hæstv. ráðherra fái gagnrýni á marga þætti í þessu frumvarpi vegna þess að okkur í stjórnarandstöðunni hefur ekki verið veittur aðgangur að þeirri vinnu sem hefur farið fram að undanförnu. Hæstv. ráðherra fór vel yfir það að hann hefði átt mjög gott samstarf við formenn og varaformenn í þingnefndum Alþingis. En það vill nú svo sérkennilega til að formenn og varaformenn í þingnefndum Alþingis eru bara stjórnarliðar. Þannig að ég hvet hæstv. ráðherra í lok þessarar umræðu að fara að sýna það og sanna að við eigum að vinna saman að úrlausn þessara gríðarlega erfiðu verkefna.

Hæstv. ráðherra getur ekki ætlast til þess að fara hér gagnrýnislaust í gegnum þetta frumvarp, sérstaklega af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni, þegar við höfum ekki fengið að koma nærri neinu máli þegar kemur að grundvallarmálum eins og fjárlögum ríkisins árið 2010.

Ég vil svo að lokum segja, um leið og ég ítreka að það þarf að draga saman í ríkisrekstrinum, að það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, skuli beita sér fyrir því að þegar kemur til hagræðingaraðgerða í rekstri hins opinbera, þá á að draga saman með því að mikilvæg störf á landsbyggðinni leggjast af, ekki bara skattumdæmin, við erum að tala um dómstólana og sýslumennina. Óskaplega erfiðir tímar hafa verið hjá mörgum byggðarlögum vítt og breitt um landið.

Hæstv. ráðherra, eins og sá sem hér stendur, hefur talað fyrir því að að sjálfsögðu eigi landsbyggðin ekki að fara verr út úr þessum niðurskurði en önnur byggðarlög. En við vitum það, við hæstv. ráðherra, að mörg byggðarlög á landsbyggðinni hafa verið í viðvarandi kreppu á umliðnum 20, 30 árum. Á umliðnum 20–30 árum hefur opinberum störfum á landsbyggðinni fækkað mjög mikið. Við þekkjum þá sögu. Sá flokkur sem ég er hér í forsvari fyrir á sína sögu í þeim efnum. Sjálfstæðisflokkurinn líka. Flestallir flokkar sem hafa komið að stjórn landsins á undangengnum árum. Nú þurfum við að bregðast við.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða þessar áætlanir, ekki endilega með það í fyrirrúmi að draga mikið úr sparnaðinum. Við þurfum að draga saman. Hins vegar má það ekki verða að einhverri reglu að allar höfuðstöðvar ríkisstofnana í landinu verði staðsettar hér á suðvesturhorni landsins. Eru mér þá til að mynda minnisstæð málefni Skógræktarinnar á Egilsstöðum. Mikil umræða hefur verið á undanförnum árum um sameiningu þeirrar stofnunar við aðra. Maður veltir fyrir sér hvað verður um þá ágætu stofnun, hvort höfuðstöðvarnar eins og hjá mörgum öðrum skrifstofum og embættum á landsbyggðinni í þessum fjárlögum, verði fluttar á höfuðborgarsvæðið. Þetta eru eðlilegar áhyggjur þingmanns sem hefur haft mikil sambönd og samskipti við kjósendur, m.a. í sínu kjördæmi. Það er eðlilegt að fólk sé uggandi vegna þess að ekki er búið að útfæra þessar tillögur nægilega vel.

En að lokum, um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá elju sem hann sýnir að sitja hér sem hann á náttúrlega að gera, en ég geri mér grein fyrir því, svo ég sé nú ærlegur í því, að mikið álag er á hæstv. ráðherra, þá vil ég spyrja hann að því að endingu hvort hann telji það virkilega að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda um allan þennan niðurskurð og allar þessar skattahækkanir séu í raun og veru raunhæf leið, hvort við þurfum ekki í meðförum Alþingis að milda þessar aðgerðir einhvern veginn þannig að íslensk heimili og íslensk velferðarþjónusta geti staðist þá erfiðu kreppu sem er fram undan.

Um leið minni ég hæstv. ráðherra á að það væri best ef stjórnmálamenn á vettvangi Alþingis gætu sameinast um þær erfiðu ákvarðanir sem eru fram undan, en því miður hafa ekki verið gerðar tilraunir af hálfu stjórnarinnar til þess að óska eftir liðsinni stjórnarandstöðunnar þegar kemur að ákveðnum atriðum er snerta þetta frumvarp. Það er miður. En vonandi veit framhaldið á gott og að samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu verði betra en hingað til, því það hefur einfaldlega ekki verið nægilega gott eða mikið samráð í þeim efnum.