138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá er munurinn á mér og hv. þingmanni að ég hef verið á fundunum með aðilum vinnumarkaðarins þar sem við höfum reglubundið með þriggja, fjögurra vikna millibili fundað og farið yfir framvindu mála lið fyrir lið. Vissulega er rétt að sumir hlutir hafa tafist og reynst torsóttari en við vonuðum. Fyrst og fremst hefur eitt stórt mál sem er óleyst þvælst fyrir okkur og ýtt hlutunum lengra inn á haustið en við vonuðumst til. Það er mjög bagalegt og reynist okkur dýrt. Það hefur tafið fyrir því að við næðum fram hagstæðri gengisþróun, lækkun vaxta og mörgum fleiri hlutum sem við þurfum til þess að skapa hér hagstæðara umhverfi og eru hluti grundvallar stöðugleikasáttmálans. Það klagar þó ekki upp á ríkisstjórnina í því. Hún hefur gert það sem hún hefur getað og haft í valdi sínu til að hrinda þessum hlutum fram.

Varðandi viljayfirlýsingu fyrir norðan þá stendur til að gera nýja viljayfirlýsingu með sveitarfélögunum en opna það mál þannig að fleiri möguleikar komi til greina en þeir einir að bíða eftir álveri. Er það ekki til bóta ef aðrir nýtingarkostir orkunnar gætu reynst raunhæfir og komist jafnvel fyrr af stað? Það er unnið af fullum krafti að þeim verkefnum og verið er að skoða hver af þeim eru raunhæf og viðráðanleg og hvað getur farið af stað, ekki bara einhver álver einhvern tímann heldur líka gagnaver, hrein kísilmálmframleiðsla og fleira í þeim dúr.

Við höfum reynt að aðstoða orkufyrirtækin og fleiri aðila við það sem fyrst og fremst stendur á, þ.e. að fá fjármagn til framkvæmdanna. Það er ekki við ríkisstjórnina að sakast í þeim efnum heldur fremur þá sem bera aðalábyrgð á hruninu, því einmitt það hefur sett Ísland í frost og óleyst deilumál sem því tengjast.

Ég segi því einfaldlega, og ég tel mig hafa nokkra þekkingu á því, að ég kannast ekki við að það standi upp á ríkisstjórnina að einu eða neinu leyti í þessum efnum þótt við hefðum vissulega viljað vera komin lengra áleiðis með ýmislegt sem hefur tafist (Forseti hringir.) af alkunnum ástæðum.