138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þótt fjárlagafrumvarpið gæti afvegaleitt mann og af lestri þess gæti maður haldið að það ætti ekki að fara í nýbyggingu Landspítalans heyri ég að því er haldið opnu og verið er að ræða um það við lífeyrissjóðina. Ég fagna því mjög. Að mínu mati er þarna um brýna framkvæmd að ræða. Að sjálfsögðu kostar hún mikla fjármuni en hún mun spara til langtíma. Þessi nýja bygging mun spara strax um 15% þegar hún verður komin í gagnið þannig að sú er hér stendur er mikill stuðningsmaður þess að farið verði í að reisa nýtt sjúkrahús. Það mun skapa gífurlega mörg störf á meðan á byggingartíma stendur, bæði hjá hönnuðum og öðrum byggingaraðilum.

Varðandi gistináttagjaldið skil ég það svo að verið sé að halda því opnu fyrst á það er minnst í yfirliti yfir mál sem ráðherra ætlar að leggja fram á haustþingi. Margar leiðir koma til greina Gistináttagjaldið er mjög víða notað, í nágrannaríkjum okkar meira að segja. Það er hægt að leggja gjald á farseðla, taka aðgangseyri að fjölsóttum ferðamannastöðum, setja á tryggingargjald, eða taka hluta af tryggingargjaldi, og taka hluta af veggjaldi. Þetta eru allt þekktir stofnar sem hafa verið í umræðunni. Mér er þó kunnugt um að ferðaþjónustan sjálf er ekki mjög hrifin af gistináttagjöldum.

Vonandi getum við lent þessu máli þannig að sem flestir verði sáttir. Sú er hér stendur mun alla vega styðja þær hugmyndir að einhvers konar gjald verði tekið sem mun þá fara í að gera áætlanir til að við getum síðar tekið á móti þessum ferðamannastraumi sem hingað kemur. Ég er reyndar með slíkt mál hér sem vonandi kemur til umræðu bráðlega. Ég mun verða stuðningsmaður þess að skoða allar leiðir í þessu sambandi. Það er kominn tími til að taka svona gjöld og því fyrr, því betra úr því sem komið er.