138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:43]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég segi bara að ég sé stoltur hægri krati og vilji nálgast viðfangsefnin þannig. Ég tel að við eigum að nota þær breytingar sem við þurfum að fara í á skattkerfinu til þess að auka félagslegan jöfnuð í landinu. Þeir allra ríkustu hafa haft það of gott og eiga að leggja meira til samfélagsins og þess vegna eigum við að horfa á það hvernig við getum skoðað samspil fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts til þess að auka jöfnuðinn.

Um leið verðum við að horfa á það vandamál sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Ef við náum að virkja það fé sem liggur óvirkjað í bankakerfinu í dag til að styrkja fyrirtækin til fjárfestinga, fá fólk til að koma með fjármuni sína inn í endurskipulögð lífvænleg fyrirtæki, þá eigum við um leið að skoða það á vettvangi þingsins.