138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sama eigi við um ýmsa aðra skatta varðandi hvatningaráhrif þeirra og að sama skapi hvaða áhrif skattahækkanir geta haft til þess að letja.

Hv. þingmaður á sæti í efnahags- og skattanefnd og fær væntanlega þau skattafrumvörp til meðferðar sem væntanleg eru og ég bið hv. þingmann að hafa það í huga við þá yfirferð hvaða áhrif hækkun á fjármagnstekjuskatti kynni að hafa á viðskipti í landinu almennt, því ég óttast að hærri fjármagnstekjuskattar geti leitt til þess að hvatinn til sparnaðar verði minni, hvatinn til fjárfestinga í atvinnulífi verði minni, hvati til viðskipta verði minni.

Við þekkjum svo sem þá sögu að þegar breytingar voru gerðar fyrir rúmum áratug eða svo með upptöku fjármagnstekjuskattsins og þar af leiðandi lækkun á sköttum á ýmsa gerninga, söluhagnað fyrirtækja, arðgreiðslur og þess háttar, varð það til þess að ýta mjög undir viðskipti. Ég held að á þeim tíma hafi það verið mjög jákvætt skref til að efla viðskiptalífið í landinu. Ég er þeirrar skoðunar í sjálfu sér að við stöndum í sömu sporum í dag. Þegar menn velta fyrir sér hækkun á fjármagnstekjuskatti held ég að menn muni reka sig fljótt á það að hækkun á fjármagnstekjuskatti getur haft mjög neikvæð áhrif á atvinnulífið. Ég bið hv. þingmann að hafa þetta í huga við sína væntanlega vönduðu og góðu yfirferð yfir þessi mál í efnahags- og skattanefnd.