138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

íslenska ákvæðið í loftslagsmálum.

[13:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var mikið rætt um losunarheimildir Íslendinga, skilyrðin þar um og ákvörðun sem hæstv. umhverfisráðherra hefur tekið nú fyrir hönd þjóðarinnar, að afsala okkur, þjóðinni, 75% af losunarheimildum sem við höfum til ráðstöfunar samkvæmt hinu svokallaða íslenska ákvæði. Voru nefndir þar til sögunnar 15 milljarðar sem ég hef komist að að er stórlega vanmetið. Þarna er um að ræða alheimsauðlind sem okkur var fenginn lykillinn að þegar við skrifuðum undir og gátum fullgilt ákvæði okkar í Kyoto-bókuninni.

Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra: Hver eru hennar rök fyrir því að þessu ákvæði er nú ekki lengur til haga haldið fyrir okkur, sérstaklega þar sem efnahagsástandið er nú eins og það er hér á landi? Hvernig í ósköpunum getur hæstv. umhverfisráðherra tekið þessa ákvörðun einhliða? Af hverju beitir hæstv. umhverfisráðherra sér ekki fyrir því að þetta ákvæði sé inni og að við Íslendingar höldum þessum losunarheimildum eftir að ákvæðið fellur úr gildi 31. desember 2012. Það er ljóst að flug mun að öllum líkindum falla undir ákvæði 2012–2013. Hvar ætlar umhverfisráðherra að finna fjármagn til þess að við getum uppfyllt þótt ekki væri annað en heimildir varðandi flugið, svo við tölum ekki um allan þann iðnað sem vonir standa til að verði byggður upp hér á næstu árum eftir kreppuna? Hefur hæstv. umhverfisráðherra hugsað þessa hugsun til enda og hver eru rök hennar fyrir því að sleppa hendinni af þessum mikilvægu réttindum sem við höfum nú?