138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

staða sparisjóðanna.

[14:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svör hans. Ástæðan fyrir að ég beindi þessari spurningu til hans var að það var hann sem var blóðugur upp að öxlum við að leggja þetta frumvarp fram þannig að ég vildi gjarnan fá svör frá honum. Það einkenndi svolítið umræðuna að þá sást mjög lítið til vinstri grænna. Því var það einkar athyglisvert að sjá núna Jón Bjarnason uppgötva hvaða áhrif þetta mun hafa á stofnfjáreigendur, alla vega í hans heimabyggð.

Ég saknaði þess mjög, og það var eitt af því sem var rætt í viðskiptanefnd þegar við vorum að fjalla um þetta mál, að hugsanlega kæmi fram nýtt frumvarp þar sem frekar væri horft í samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna á þessu þingi. Það er því miður ekki að finna á þingmálalistanum frá viðskiptaráðuneytinu en vonandi er nýr formaður viðskiptanefndar tilbúinn til að taka það upp. Það var Joseph Stiglitz, sem kom hingað í heimsókn, sem benti t.d. á hvað það skiptir miklu máli að hafa þessa fjölbreytni í fjármálakerfinu og að (Forseti hringir.) sparisjóðir almennt í heiminum, með einhverjum undantekningum náttúrlega, hafi staðið sig mjög vel í kreppunni.