138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að það verður eins og jafnan áður mikið um að vera í fjárlaganefnd í haust en þessi fjárlagagerð er náttúrlega óvenjuleg við þær aðstæður sem uppi eru. Mig langar til að beina örfáum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra. Hann kom inn á þetta að hluta til í ræðu sinni en í ljósi þess að endurreisn bankanna er nú komin nokkuð á veg og fréttir bárust af því að komin væri lausn gagnvart Landsbanka Íslands langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra aðeins út í þá breytingu sem varð þegar horfið var frá því að leggja fjármálakerfinu til fé með eignum Seðlabanka sem tryggingu. Hvað varð til þess að sú breyting var gerð að ríkissjóður ákvað að gefa út ríkisskuldabréf? Mun sú endurreisn sem nú er í augsýn gagnvart Landsbanka Íslands, sú leið sem þar virðist verða ofan á, hafa áhrif á þær tölur sem í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru? Telur hæstv. fjármálaráðherra að þarna sé of mikið í lagt? Við skulum vona að svo sé því að við þurfum auðvitað að finna peninga eins og hægt er. Mig langar aðeins að fá nánar um þetta frá hæstv. fjármálaráðherra. Einnig langar mig til að spyrja: Ef það verður raunin að tveir af þessum þremur stóru bönkum verða að mestu leyti ekki í eigu ríkisins, hvaða áhrif hefur það þá á önnur áform?

Þá vil ég gjarnan fá að vita um Bankasýslu ríkisins, hefur það áhrif á fyrirætlun ríkisstjórnarinnar hvað Bankasýsluna varðar ef það verður fyrst og fremst Landsbanki Íslands sem verður í eigu íslenska ríkisins? Það væri fróðlegt að fá sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra um þetta.