138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru allmargar spurningar. (Gripið fram í.) Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög gleðilegt ef niðurstaðan af endurreisn bankakerfisins verður sú að ríkið muni binda í heild til muna minni fjármuni í því en upphaflega stefndi í. Verði niðurstaðan í báðum tilvikum, Kaupþings og Glitnis, sú að gerast eigendur að viðkomandi nýjum bönkum munar þar stórum fjárhæðum því að stærstur hluti 137 milljarða kr. forfjármögnunar ríkisins gengur þá til baka. Sömuleiðis ef eiginfjárframlagið til Landsbanka Íslands verður minna en þeir 140 milljarðar eins og áætlað var sem samkomulagið nú vísar í eða 127 milljarðar.

Þá kemst ríkið í raun og veru frá þessu verkefni með miklu léttari hætti en upphaflega var reiknað með. Sömuleiðis verður fjárhæðin að endingu minni en gert var ráð fyrir í byrjun varðandi sparisjóðina, eins og kom reyndar fram hér fyrr í dag, vegna þess að bæði SPRON og Sparisjóður Mýrasýslu fóru aðra leið eins og kunnugt er. Jafnvel er ekki víst að allir sparisjóðir fari þá leið að nýta sér eiginfjárframlag ríkisins.

Bankasýslan er að taka til starfa. Stjórnin hefur verið skipuð, hún er farin að funda og auglýst hefur verið eftir framkvæmdarstjóra. Ég geri ráð fyrir því að innan mjög skamms tíma verði formlega hægt að standa að yfirfærslu verkefnisins frá fjármálaráðuneytinu til Bankasýslunnar og það verður gert. Það er ærið verkefni fyrir hana að halda 80–100% eignarhlut í Landsbankanum sem væntanlega verður um ókomin ár eða langa framtíð. Önnur áform standa ekki til af hálfu þessarar ríkisstjórnar en að ríkið haldi hlut sínum í a.m.k. þessum banka sem kjölfestu, umtalsverðum eignarhlut í sparisjóðum og þeim eignarhlutum sem eftir standa í hinum stóru bönkum sem verða einhverjir. Auk þess mun ríkið eiga þar stjórnarmenn og þar fram eftir götunum. (Forseti hringir.) Verkefni Bankasýslunnar verða að mínu mati síst mikilvægari á komandi missirum en ráð var fyrir gert í upphafi.